Innlent

Sundabraut ekki frestað en framhaldið er óljóst

Kristján L. Möller
Kristján L. Möller

„Það er ekki verið að fresta framkvæmdum við Sundabraut og það stendur ekki til,“ segir Kristján L. Möller samgönguráðherra.

Fréttablaðið upplýsti í gær að hluti þeirra fjögurra milljarða króna, sem samkvæmt samgönguáætlun eiga að fara í Sundabraut á næsta ári, yrði nýttur til vegaframkvæmda annars staðar á landinu.

Kom jafnframt fram að útlit væri fyrir að peningarnir nýttust ekki allir til verksins þar sem undirbúningur er tiltölulega skammt á veg kominn.

Kristján staðfestir þetta en segir óvíst hve miklu af Sundabrautarpeningunum verður ráðstafað til annarra verka. Enn sé ekki hægt að segja til um hver fjárþörfin verður enda verkframvindan óljós. Eftir er að meta umhverfisáhrif, ákvarða legu og í framhaldi þess; hanna mannvirkið.

„Það verður farið í Sundabraut um leið og verkið er tilbúið til framkvæmda. Ég er jafn áhugasamur og aðrir um að ráðist verði í lagningu Sundabrautar,“ segir Kristján L. Möller.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×