Innlent

Verkuðu sel á ísjaka þegar björgunarþyrlur komu

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Þrír Grænlendingar sem áhafnir á þyrlum Landhelgisgæslunnar bjöguðu austur af Grænlandi í gær, voru að gera að sel á ísjaka þegar björgunarmenn komu á staðinn. Leki kom að bát þeirra eftir að hann lokaðist inni í hafís fyrir nokkrum dögum. Einstakar myndir Landhelgisgæslunnar eru með þessari frétt.

Þremenningarnir höfðu verið við selveiðar þegar leki kom að bátnum. Þeir voru búnir að draga sökkvandi bátinn upp á ísjaka og gerðu þar að selunum og voru búnir að flá þá þegar þyrlur Landhelgisgæslunnar komu að. Eins og þessar myndir Gæslunnar sýna höfðu mennirnir kveikt bál á ísjakanum til að vekja á sér athygli og skutu upp neyðarblysi þegar þyrlurnar nálguðust. Danska varðskipinu Hvítabirninum hafði ekki tekist að komast til mannanna þar sem þeir áttu í miklum erfiðleikum með að komast í gegnum ísbreiðuna. Þyrla skipsins var einnig biluð svo kallað var eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar.

Að sögn Sigurðar Ásgeirssonar þyrluflugmanns Gæslunnar búast mennirnir við því að báturinn sökkvi þegar jakinn bráðnar. Svo mikið rek sé á ísnum að ómögulegt sé að vita nákvæma staðsetningu hans og þess vegna erfitt að komast að honum.

Björgun mannanna gekk vel og einungis liðu um tíu mínútur þar til mennirnir höfðu verið hífðir um borð í TF-LÍF. Þeir voru við ágæta heilsu og var flogið til Kulusuk þar sem áhafnir þyrlnanna hvíldu sig fyrir heimferðina í gær, en þeir lentu í Reykjavík á níunda tímanum í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×