Innlent

Sýknudómur Héraðsdóms skelfilegt afturhvarf til fortíðar

Atli Gíslason lögmaður segir sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem ákærður var fyrir nauðgun á Hótel Sögu,skelfilegt afturhvarf til fortíðar. Dómurinn noti viðbrögð stúlkunnar við meintri nauðgun gegn henni. Ekki hefur verið ákveðið hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær tvítugan Pólverja sem ákærður var fyrir nauðgun inn á salerni Hótel Sögu í mars síðastliðnum. Dómurinn taldi ljóst að samræðið hefði átt sér stað en ákærða hefði ekki verið gert ljóst að samræðið væri gegn vilja stúlkunnar. Margrét Gunnlaugsdóttir réttargæslumaður stúlkunnar er ósammála niðurstöðu dómsins og segir verknaðinn liggja fyrir en hann teljist ekki ofbeldi í skilningi hegningarlaganna.

Atli Gíslason lögmaður og þingmaður vinstri grænna segir dóminn skólabókardæmi um hvernig ekki eigi að dæma í nauðgunarmálum. Hann segir viðbrögð stúlkunnar eðlileg miðað við aðstæður og telur brýnt að dómararar hætti að horfa einungis á verknaðarlýsingu heldur líti til andlegra afleiðinga nauðgana.

Sveinn Andri Sveinsson lögmaður ákærða segir niðurstöðu dómsins hafa verið rétta miðað við þá sönnunarfærslu sem farið hefði fram í málinu. Komið hafi mjög skýrt fram við flutning málsins þegar stúlkan hafi verið spurð hvort hún hefði með orði eða látæði gefið til kynna að hún vildi ekki hafa mök við manninn. Hún hafi sagt nei og bar því við að hafa frosið og ekkert getað aðhafst. Um leið og hún hafi fundið til sársauka hafi hún ýtt manninum frá sér og hann hætt samstundis. Þessi frásögn væri einnig í samræmi við framburð mannsins.

 

 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.