Innlent

Vilja Hjallastefnugrunnskóla í Ár­borg

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sigurbjörg Rut Hoffritz, afhendir hér Braga bæjarstjóra listann. Með þeim á myndinni er Heiða Ösp Kristjánsdóttir (t.h.), sviðstjóri fjölskyldusviðs og Sandra B. Clausen
Sigurbjörg Rut Hoffritz, afhendir hér Braga bæjarstjóra listann. Með þeim á myndinni er Heiða Ösp Kristjánsdóttir (t.h.), sviðstjóri fjölskyldusviðs og Sandra B. Clausen Magnús Hlynur Hreiðarsson

Mikill áhugi er hjá foreldrum, sem eiga börn á Hjallastefnu leikskóla á Selfossi að næsti grunnskóli, sem verður byggður í bæjarfélaginu verði Hjallastefnuskóli. Undirskriftarlisti þess efnis hefur verið afhentur bæjaryfirvöldum í Árborg.

Í dag rekur Hjallastefnan 15 leikskóla og þrjá grunnskóla í ellefu sveitarfélögum. Skólarnir eru í Garðabæ, Hafnarfirði og í Reykjavík. Nú hafa foreldrar barna í Hjallastefnuleikskólanum Árbæ á Selfossi afhent bæjaryfirvöldum í Árborg undirskriftalista með 133 nöfnum þar sem skorað er á sveitarfélagið að koma upp Hjallastefnugrunnskóla í Árborg.

Sigurbjörg Rut Hoffritz er í forsvari fyrir undirskriftalistann.

„Þetta mál snýst um það að við foreldrar á Árbæ erum gríðarlega ánægð með starfið, sem er unnið á leikskólanum en Hjallastefnan tók við leikskólanum fyrir nokkrum árum síðan og okkur langar að geta valið um það hvort að börnin okkar fari í skóla á vegum Hjallastefnunnar,” segir Sigurbjörg Rut.

Yrði þetta eitthvað öðruvísi grunnskóli en aðrir grunnskólar, Hjallastefnugrunnskóli?

„Já, Hjallastefnan rekur leikskólana sína og grunnskólana eftir ákveðinni stefnu, þannig að já, starfið er öðruvísi, það er bara öðruvísi uppbyggt og okkur líkar sú uppsetning,” segir Sigurbjörg Rut.

En hvað segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri í Árborg, verður næsti grunnskóli, sem verður byggður í sveitarfélaginu Hjallastefnuskóli ?

„Það verður bara spennandi að vinna málið áfram hvort þetta sé möguleiki og við munum vinna það bæði með foreldrum og skólasamfélaginu hjá okkur þannig að það eru bara bjartir tímar fram undan og mjög spennandi,” segir Bragi.

Þannig að þú ert greinilega bara bjartsýnn?

„Ég er alltaf bjartsýnn og þetta skiptir okkur sveitarfélagið bara svo miklu máli að hafa valmöguleika, við viljum hafa valmöguleika í samfélaginu og þetta er bara mjög gott innlegg í umræðuna og sýnir ákveðna þörf þannig að nú er boltinn hjá sveitarfélaginu að vinna áfram,” segir Bragi.

Kannski verður næsti grunnskóli, sem verður byggður í Árborg Hjallastefnugrunnskóli.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sandra B. Clausen, sem á barn í Hjallastefnuleikskólanum Árbæ á Selfossi kenndi um tíma í Hjallastefnu grunnskóla í Hafnarfirði.

„Þannig að ég þekki svolítið inn á þennan þægilega mjúka aga, sem að einkennir Hjallastefnuna. Það er bara þetta undirliggjandi að þurfa ekki að vera með einhverjar skipanir og hækka róminn og allt þetta, heldur. Krakkarnir finna sinn ramma og vita hvar þau standa innan kjarnans og líður bara þannig vel,” segir Sandra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×