Lífið

Brotist inn til sjónvarpsstjörnu og fótboltakappa

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Brotist var inn til Mayu Jama og Rúbens Dias og fjölda hluta stolið.
Brotist var inn til Mayu Jama og Rúbens Dias og fjölda hluta stolið. Getty

Sjónvarpskonan Maya Jama og fótboltamaðurinn Rúben Dias lentu í miður skemmtilegu atviki þegar brotist var inn í heimili þeirra í Cheshire í norðvesturhluta Englands.

Hin breska Maya Jama er þekktust fyrir að vera kynnir Ástareyjunnar (e. Love Island) og söngvaþáttarins The Masked Singer. Hinn portúgalski Rúben Dias er miðvörður Manchester City í ensku úrvalsdeildinni.

Parið býr í 580 fermetra glæsihýsi við Woodbrook-veg í Alderley Edge-hverfi í Cheshire-sýslu, sem liggur sunnan við Liverpool og Manchester, en hvorugt þeirra var heima þegar innbrotið átti sér stað. Dias var að spila útileik gegn Galatasaray í Tyrklandi í meistaradeildinni þetta kvöld meðan Jama var í Suður-Afríku við tökur á Love Island: All Stars.

Maya og Dias birtu jólakossamynd af sér um daginn.

Götublöð Bretlandseyja herma að hlutum að andvirði þúsunda punda hefði verið stolið, þar á meðal tískufatnaður, skartgripir og raftæki. Bresta ríkisútvarpið hefur eftir lögreglu að glæpurinn hafi verið tilkynntur rétt eftir ellefu það kvöldið og málið sé enn til rannsóknar.

Hin 31 árs Jama og hinn 28 ára Dias hafa verið saman síðan í nóvember 2024 fluttu inn saman í nóvember síðastliðnum. Áður höfðu þau búið í sundur, Jama í Lundúnum og Dias í Manchester-borg, sem gerði að verkum að þau þurftu að flakka mikið á milli heimila.

Parið hefur haldið sambandi sínu nokkurn veginn utan sviðsljóssins og hafa til að mynda ekki sést saman á rauða dreglinum. Aftur á móti birta þau reglulega myndir hvort af öðru á samfélagsmiðlum.

Dias og Jama eru ekki fyrstu fórnarlömb innbrotsþjófa sem fylgjast með ferðalögum fótboltamanna. Á sama svæði hafa leikmennirnir Jack Grealish, Raheem Sterling og Riyad Mahrez lent í sambærilegum innbrotum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.