Innlent

Hafi nauðgað sex ára stúlku og eigin­konu sinni og birt af því myndir

Árni Sæberg skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur mun dæma í málinu.
Héraðsdómur Reykjavíkur mun dæma í málinu. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir að nauðga sex ára stúlku tvívegis og eiginkonu sinni ítrekað. Hann sætir einnig ákæru fyrir að hafa ljósmyndað athæfi sitt og birt ljósmyndir af því á netinu.

Þetta kemur fram í ákæru á hendur manninum sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. 

Rétt er að vara við lýsingum sem finna má í fréttinni.

Í ákærunni segir að maðurinn sé ákærður fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn barni með því að hafa tvívegis í fyrra í svefnherbergi á heimili sínu, án samþykkis og með ólögmætri nauðung, haft önnur kynferðismök en samræði við stúlkuna, sem þá hafi verið sex ára gömul og gestkomandi á heimili hans, með því að nýta sér yfirburði sína og aldursmun og notfæra sér að hún var sofandi og því hvorki getað spornað við verknaðinum né skilið þýðingu hans vegna aldurs síns. 

Maðurinn hafi lagst við hlið stúlkunnar og strokið hönd sinni um læri hennar, sett hönd hennar á getnaðarlim sinn og lagt liminn á og við andlit, rass og kynfærasvæði stúlkunnar og á sama tíma hafi hann fróað sér.

Hafi tekið 45 myndir af stúlkunni

Hann sætir einnig ákæru fyrir kynferðislega áreitni og kynferðisbrot, með því að hafa í ofangreind skipti, ljósmyndað stúlkuna á kynferðislegan og klámfenginn hátt og birt ljósmyndirnar í framhaldi á veraldarvefnum og þannig aflað sér, framleitt og dreift barnaníðsefni.

Hann hafi tekið að minnsta kosti 45 ljósmyndir, sem sýndu kynferðislega misnotkun á barninu, meðal annars getnaðarlim hans við og á andliti og kynfærasvæði stúlkunnar og þar sem hún hélt utan um lim hans.

Hafi sett hristu í endaþarm eiginkonu sinnar

Þá segir að maðurinn sé ákærður fyrir nauðgun og stórfellt brot í sambandi, með því að hafa á tímabilinu 2020 til 2024, í sex til átta skipti, á heimili sínu, án samþykkis, haft samræði og önnur kynferðismök við eiginkonu sína, með því að notfæra sér það að hún svæfi og því ekki getað spornað við verknaðinum sökum áhrifa áfengis og/eða svefndrunga. 

Maðurinn hafi sett getnaðarlim sinn og fingur í endaþarm og leggöng hennar og í að minnsta kosti eitt skipti sett hljóðfærið hristu í endaþarm hennar, þá hafi hann jafnframt haft sáðlát á og í kynfæri, endaþarm og andlit konunnar. 

Með háttsemi sinni hafi hann ógnað lífi, heilsu og velferð konunnar endurtekið og á sérstaklega sársaukafullan, meiðandi og alvarlegan hátt.

Birti myndefni af konu sinni á netinu

Loks sé hann ákærður fyrir kynferðislega áreitni, kynferðisbrot og stórfellt brot í nánu sambandi, með því að hafa í ofangreind skipti ljósmyndað eiginkonu sína án hennar samþykkis, á kynferðislegan og klámfenginn hátt og birt myndefnið í framhaldi á veraldarvefnum og þannig útbúið, aflað sér og dreift myndefni sem sýndi hana á kynferðislegan hátt, meðal annars getnaðarlim hans og fingur í og við kynfæri hennar og rass.

Með þeirri háttsemi sinni hafi hann sömuleiðis ógnað lífi, heilsu og velferð konunnar endurtekið og á sérstaklega sársaukafullan, meiðandi og alvarlegan hátt.

Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar og fyrir hönd stúlkunnar og eiginkonu mannsins er fimm milljóna króna krafist í miskabætur, hvorri um sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×