Innlent

Guð­mundur Ingi rótar fólki inn í Sam­fylkinguna

Jakob Bjarnar skrifar
Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu er hörkuduglegur við að smala fólki í Samfylkinguna en prófkjör fer fram eftir 17 daga. Hann hefur enn ekki myndað kosningabandalag með neinum öðrum frambjóðanda.
Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu er hörkuduglegur við að smala fólki í Samfylkinguna en prófkjör fer fram eftir 17 daga. Hann hefur enn ekki myndað kosningabandalag með neinum öðrum frambjóðanda. vísir/vilhelm

Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu býður sig fram til 3. sætis á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Guðmundur er með duglegri mönnum og hann hefur nú þegar fengið hundruð manna til að skrá sig í flokkinn til að geta kosið í prófkjöri sem fer fram eftir 17 daga.

„Jú, það er mikið að gera núna,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við Vísi. „Mesta vinnan var fyrir fjórum árum en ég er ánægður með að fólk skuli vilja styðja mig og taka vel í þetta. Ég er þakklátur fyrir það.“

Ekki liggur fyrir hversu margir nákvæmlega hafa gengið í Samfylkinguna með það fyrir augum að styðja Guðmund Inga en hann segir ljóst að það skipti hundruðum. „Það teldi nú ekki mikið ef þetta væru bara einhverjir tugir,“ segir hann og hlær.

Guðmundur Ingi segist leggja mesta áherslu á „mjúku málin“ sem séu ef til vill ekki svo mjúk þegar allt kemur til alls. „Mínir málaflokkar eru velferðarmálin. Þar vill fólk sjá breytingar, að hugsað sé meira um fólkið.“

Þessi mikli stuðningur sem Guðmundur Ingi nýtur, en hann má sjá á framboðssíðu hans og er þar metinn 900 manns, hefur ekki bara áhrif á hans gengi heldur getur það skipt sköpum fyrir til að mynda þau sem eru í oddvitaslag; Heiðu Björk Hilmisdóttur og Pétur Marteinsson – styður þú einhvern þar?

„Þetta er svo viðkvæmt að ég get ekkert sagt til um það enn sem komið er. Ég er náttúrlega fyrst og fremst að vinna fyrir sjálfan mig. En á einhverjum tímapunkti þarf maður að taka ákvörðun,“ segir Guðmundur Ingi. Hann bendir líka á að þau séu fimm sem eru að berjast um annað sætið þannig að margir eru um hituna. „Það eru 17 að bítast um sex sæti. Þetta er flókið mál.“


Tengdar fréttir

Þessi bjóða sig fram fyrir Samfylkinguna í Reykjavík

Í dag leið framboðsfrestur í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík. Þannig er orðið ljóst að einhverjir eftirfarandi einstaklinga verða á listum Samfylkingarinnar í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fara í vor.

Pétur fer á móti borgarstjóra og vill fyrsta sætið í Reykjavík

Pétur Marteinsson, rekstrarstjóri og fyrrverandi knattspyrnumaður, ætlar að gefa kost á sér í oddvitasæti Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Þar fer hann á móti Heiðu Björg Hilmisdóttur, núverandi oddvita og borgarstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×