Innlent

Reynslan hafi breytt sér úr ungum hægrimanni í klassískan krata

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Pétur Marteinsson vill leiða lista Samfylkingarinnar í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum.
Pétur Marteinsson vill leiða lista Samfylkingarinnar í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum. Vísir/Vilhelm

Pétur Marteinsson, sem sækist eftir oddvitasæti Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir að fjölbreytt reynsla sín í gegnum tíðina hafi breytt honum úr hægri frjálshyggjumanni yfir í klassískan jafnaðarmann. Hann vilji meðal annars valdefla unga fólkið, einkum unga karlmenn, og klára „leikskólabyltinguna“ í samstarfi við ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur, verði honum falið að leiða Samfylkinguna í borginni. Hann fer þó varlega í að gera kosningaloforð en segist munu láta verkin tala.

Þetta segir Pétur í grein sem birtist á Vísi í morgun, þar sem hann rekur reynslu sína, áherslur og útskýrir hvers vegna hann tekur slaginn við sitjandi borgarstjóra, Heiðu Björgu Hilmisdóttur, í oddvitasæti Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Kveðst vera klassískur jafnaðarmaður

Pétur kemur víða við í greininni, en þátttaka hans í prófkjöri Samfylkingarinnar vakti nokkra athygli í síðustu viku, einkum þar sem Pétur hefur áður verið virkur hægrimaður, en hann átti til að mynda sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í þingkosningum fyrir allmörgum árum. Í greininni sem Pétur sendi frá sér í dag segist hann hins vegar vera klassískur krati.

„Frjálslyndi hefur alltaf verið kjarninn í minni pólitísku hugsun. Ungur laðaðist ég að frjálshyggju og hægrimennsku af þeim orsökum en framangreind reynsla hefur smám saman breytt mér. Ég er klassískur jafnaðarmaður, eða krati,“ skrifar Pétur.

„Samfélög sem byggja á samheldni og jöfnuði hafa að mínu mati yfirburði yfir samfélög einstaklingshyggju og ójöfnuðar. Þetta er ástæða þess að ég hef stutt og kosið Samfylkinguna í borginni árum saman. Sú breyting sem orðið hefur á flokknum eftir að Kristrún Frostadóttir tók við forystu hans hefur aukið enn á aðdráttaraflið og kraftinn í starfinu. Nú er Samfylkingin sannkölluð breiðfylking jafnaðarfólks um land allt sem trúir á framtíðina og leiðir breytingar á Íslandi,“ heldur hann áfram.

Vill skoða lögfestingu leikskólastigsins

Um leið og Pétur segist í greininni ekki ætla að gefa loforð sem hann geti ekki staðið við, segist hann staðráðinn í að leggja sitt af mörkum til að laga leikskólamálin. Það sé löngu tímabært að ríki og sveitarfélög taki höndum saman í þeim efnum og „klári leikskólabyltinguna“ sem hafi hafist undir stjórn jafnaðarmanna og Reykjavíkurlistans fyrir aldamót.

„Með því að lögfesta leikskólastigið og innleiða í skrefum rétt til leikskólavistar fyrir öll börn að loknu fæðingarorlofi – líkt og gert hefur verið á öðrum Norðurlöndum. Til þess þarf fyrst og fremst sterkan vilja, fulla fjármögnun og samhentar aðgerðir ríkis og sveitarfélaga,“ skrifar Pétur meðal annars um leikskólamálin.

Innflutt menningarstríð sé til ama

Þá segist Pétri vera umhugað um valdeflingu unga fólksins. Hann hafi sjálfur mikla trú á öflugu íþrótta- og frístundastarfi, inngildingu og betri stuðningi innan skólakerfisins.

„Hljóti ég framgang í komandi prófkjöri vil ég nýta vettvanginn til að leggja sérstaka áherslu á að tala til ungs fólks, ekki síst ungra karlmanna, á uppbyggilegri og jákvæðari hátt en vængurinn lengst til hægri hefur gert undanfarin misseri. Það vantar tilfinnanlega mótvægi við hið skaðlega innflutta menningarstríð og þau sjónarmið sundrungar sem fengið hafa að dreifa úr sér um stöðu og lífsviðhorf ungra manna,“ skrifar Pétur meðal annars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×