Innlent

Reyndi að komast inn á lög­reglu­stöð með fíkni­efni

Samúel Karl Ólason skrifar
Það að reyna að komast inn á lögreglustöð með fíkniefni verður að teljast nokkuð góð leið til að láta handtaka sig.
Það að reyna að komast inn á lögreglustöð með fíkniefni verður að teljast nokkuð góð leið til að láta handtaka sig. Vísir/Vilhelm

Lögregluþjónar handtóku í nótt mann sem sagður er hafa átt í átökum við dyraverði í miðbænum og var hann færður á lögreglustöð. Þar var þó ákveðið að sleppa manninum, þar sem dyraverðirnir kærðu hann ekki.

Maðurinn fékk því að ganga heim en var honum sagt að fara ekki aftur í miðbæinn. Í dagbók lögreglunnar segir þó að um klukkustund síðar hafi maðurinn verið mættur aftur á lögreglustöðina og reyndi hann að komast inn í húsið frá athafnasvæði lögreglunnar.

Þá var maðurinn handtekinn á nýjan leik og vistaður í fangaklefa. Þá fundust fíkniefni einnig á honum.

Lögregluþjónar höfðu í nógu að snúast í nótt og voru átta sem gistu í fangageymslu. 81 mál var skráð í kerfi lögreglunnar eftir nóttina.

Einn þeirra átta sem gistu hjá lögreglunni í nótt var handtekinn eftir að tilkynning barst um æstan mann í bænum. Hann neitaði að framvísa skilríkjum og fylgja fyrirmælum lögregluþjóna. Þar að auki fundust fíkniefni á honum og var hann handtekinn.

Tveir til viðbótar voru handteknir við rannsókn á líkamsárás þar sem margir veittust að einum í miðbænum.

Að minnsta kosti tólf ökumenn voru stöðvaðir frá klukkan fimm í gær til fimm í morgun vegna gruns um að þeir væru að keyra undir áhrifum fíkniefna og/eða fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×