Haaland tryggði City sigur í stór­leiknum gegn Real Madrid

Aron Guðmundsson skrifar
Erling Haaland skoraði sigurmark leiksins úr vítaspyrnu
Erling Haaland skoraði sigurmark leiksins úr vítaspyrnu Vísir/Getty

Manchester City hafði betur gegn Real Madrid á Santiago Bernabeu í Madríd í stórleik Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld. 2-1 sigur Manchester City staðreynd og spurning hvort um hafi verið að ræða síðasta leik Real Madrid undir stjórn þjálfarans Xabi Alonso.

Leikur kvöldsins var athyglisverður fyrir margra hluta sakir en ekki síst sökum pressunnar sem var á þjálfara Real Madrid, Xabi Alonso, þar sem jafnvel var talað um að með slæmum úrslitum í kvöld gæti hann verið látinn taka pokann sinn.

Það voru hins vegar lærisveinar hans sem áttu fyrsta höggið í leiknum þegar að Rodrygo kom þeim yfir með marki á 28.mínútu eftir stoðsendingu frá Jude Bellingham.

Frábær skyndisókn þar hjá heimamönnum en gestirnir frá Manchester City eru með gæðamikinn hóp og þeir náðu að svara fyrir sig áður en að fyrri hálfleik yfir lauk.

Nico O´Reilly náði að jafna metin fyrir Manchester City á 35.mínútu þegar að frákast eftir vörslu Thibaut Courtois í marki Real Madrid endaði hjá honum og af stuttu færi hamraði hann boltann í netið, 1-1.

Skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks dró svo aftur til tíðinda þegar að Antonio Rudiger, varnarmaður Real Madrid, braut af sér innan vítateigs og eftir skoðun í VAR-sjánni var vítaspyrna dæmd.

Auðvitað var það Norðmaðurinn Erling Haaland sem tók vítaspyrnuna fyrir Manchester City og af miklu öryggi kom hann þeim yfir. 2-1 og þar við sat í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var spennandi í meira lagi en hvorugu liðinu tókst þó að koma boltanum í netið. Svo fór að Manchester City sigldi heim 2-1 sigri á afar erfiðum útivelli og spurning hvort um hafi verið að ræða síðasta naglann í kistu Xabi Alonso sem þjálfari Real Madrid. Tíminn verður að leiða það í ljós.

Sigurinn sér hins vegar til þess að Manchester City lyftir sér upp fyrir Real Madrid í fjórða sæti Meistaradeildarinnar og er þar í góðum málum með þrettán stig, stigi meira en Real Madrid sem vermir 8.sætið nú þegar að tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira