Sport

Ramsey rekinn í sturtu eftir hnefa­högg: „Hann hrækti á mig“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jalen Ramsey hjá Pittsburgh Steelers gengur af velli. 
Jalen Ramsey hjá Pittsburgh Steelers gengur af velli.  Getty/Michael Owens

Varnarmaðurinn Jalen Ramsey úr liði Pittsburgh Steelers fór snemma í sturtu í NFL-deildinni í gær fyrir að slá til stjörnuútherjans Ja'Marr Chase hjá Cincinnati Bengals.

Eftir leikinn fullyrti Ramsey að Chase hefði hrækt á sig áður en hann sló til hans. Myndband tekið niðri á vellinum virtist sýna meinta hráku koma úr munni Chase rétt áður en Ramsey sló til hans.

„Hann hrækti á mig,“ sagði Ramsey. „Mér er skítsama um fótbolta eftir það, með fullri virðingu. Ég er alltaf til í skítkast og svoleiðis. Mér finnst það í raun skemmtilegur hluti af leiknum. Ég held að fólk viti það. Við vorum að blammera á hvorn annan, sem er í lagi mín vegna,“ sagði Ramsey.

„En um leið og hann hrækti á mig, þá var það bara fokk það. Ég er viss um að NFL-deildin mun rannsaka málið. Þeir eru með hundrað myndavélar þarna úti. Þeir geta rannsakað þetta. Þeir geta séð allt. Þeir ættu að geta fundið þetta og séð að hann hrækti og það er bara það sem er eftir það, satt best að segja. Ég var samt aðeins of vægur ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ sagði Ramsey.

Chase neitaði hins vegar ásökunum Ramseys.

„Ég hef aldrei opnað munninn við þennan gaur,“ sagði Chase við fréttamenn. „Ég hrækti ekki á neinn,“ sagði Chase.

Þegar Chase var spurður hvað hefði kallað fram viðbrögð Ramseys sagði hann: „Jæja, honum líkar ekki við sum orðin sem ég sagði við hann. Við höfum verið að rífast allan tímann. Svo ég er viss um að eitthvað hafi farið í taugarnar á honum,“ sagði Chase.

Ramsey fór snemma í sturtu en liðið hans fagnaði 34-12 sigri.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×