Innlent

Snorri etur kappi við Berg­þór og Ingi­björgu

Kjartan Kjartansson skrifar
Snorri Másson biðlar nú til samherja sinna í Miðflokknum um að kjósa sig í varaformannskjöri á flokksþingi síðar í þessum mánuði.
Snorri Másson biðlar nú til samherja sinna í Miðflokknum um að kjósa sig í varaformannskjöri á flokksþingi síðar í þessum mánuði. Vísir/Anton Brink

Þrjú eru um hituna í varaformannskjöri hjá Miðflokknum eftir að Snorri Másson tilkynnti um framboð sitt í dag. Áður höfðu Ingibjörg Davíðsdóttir, oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi, og Bergþór Ólason, sagst ætla að gefa kost á sér.

Snorri greindi frá framboði sínu í færslu á samfélagsmiðli í morgun. Þar sagðist hann hafa fengið afar eindregna hvatningu frá flokksmönnum um að gefa kost á sér að undanförnu.

„Niðurstaða mín er sú að fram sé komið raunverulegt ákall innan flokksins um endurnýjun í ásýnd forystunnar,“ skrifar Snorri.

Hann gekk fyrst til liðs við Miðflokkinn í aðdraganda þingkosninga fyrir tæpu ári og leiddi lista hans í Reykjavíkurkjördæmi suður. Fyrir það hafði Snorri starfað sem bloggari og hlaðvarpsstjórnandi og þar áður sem þáttastjórnandi á Stöð 2 og blaðamaður á Mbl.is.

Frambjóðandinn sætti harðri gagnrýni eftir umtalað viðtal í Kastljósi á Ríkisútvarpinu í byrjun síðasta mánaðar. Umræðuefnið var bakslag í málefnum hinsegin fólks en þar kvartaði Snorri undan því að hann og skoðanasystkini hans sættu skoðanakúgun vegna þess að þau vildu ekki viðurkenna tilvist trans fólks.

Kosið verður um varaformann Miðflokksins á flokksþingi sem fer fram aðra helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×