Fótbolti

Trump vill koma í veg fyrir að UEFA banni Ísrael

Sindri Sverrisson skrifar
Donald Trump með Gianni Infantino sem er forseti FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins. Það er UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, sem nú íhugar að setja Ísrael í algjört bann.
Donald Trump með Gianni Infantino sem er forseti FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins. Það er UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, sem nú íhugar að setja Ísrael í algjört bann. Getty/Richard Sellers

Framkvæmdastjórn UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, mun funda um það í næstu viku hvort að Ísrael verði sett í bann frá öllum keppnum á vegum sambandsins. Bandarísk stjórnvöld eru alfarið á móti banni.

Eins og fjallað var um fyrr í þessari viku íhuga ráðamenn hjá UEFA að setja ísraelsk lið í bann frá alþjóðlegri keppni, vegna stríðsins á Gasa. Samkvæmt ísraelskum miðlum átti mögulega að fara fram atkvæðagreiðsla um þetta síðasta þriðjudag en forráðamenn ísraelska knattspyrnusambandsins róið að því öllum árum að koma í veg fyrir slíka atkvæðagreiðslu.

Breska blaðið The Times segir í dag að UEFA muni funda í næstu viku og að mikill meirihluti sé fyrir því innan framkvæmdastjórnarinnar að setja Ísraela í bann. Það gerist í kjölfar þess að nefnt á vegum Sameinuðu þjóðanna sagði Ísrael stunda þjóðarmorð.

Annar breskur miðill, Sky Sports, segir aftur á móti að Donald Trump Bandaríkjaforseti, og hans fólk, vinni að því að koma í veg fyrir bann. Hann vilji sjá Ísrael eiga möguleika á að komast á HM karla í Bandaríkjunu, Mexíkó og Kanada næsta sumar, en Ísrael er í baráttu við Ítalíu og Noreg í sínum riðli í undankeppninni.

„Við munum klárlega reyna að koma í veg fyrir allar tilraunir til þess að banna ísraelska landsliðinu að fara á HM,“ er haft eftir talsmanni bandaríska utanríkisráðuneytisins.

Frá árinu 2023 hafa engir leikir á vegum UEFA farið fram í Ísrael en ísraelsk landslið og félagslið hafa hins vegar haldið sæti sínu í öllum keppnum, öfugt við Rússa eftir innrásina í Úkraínu. Ísraelsku liðin hafa hins vegar neyðst til að spila heimaleiki sína utan Ísraels, oft í Ungverjalandi.

Næsti áætlaði landsleikur Ísraels er í Noregi 11. október. Norska knattspyrnusambandið hefur sagt að allur ágóði af miðasölu muni renna til Lækna án landamæra vegna vinnu þeirra á Gasa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×