Enski boltinn

Hákon Rafn hélt hreinu þegar Brentford fór á­fram en þrjú Íslendingalið úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hákon Rafn Valdimarsson átti fínan leik í marki Brentford í kvöld.
Hákon Rafn Valdimarsson átti fínan leik í marki Brentford í kvöld. Getty/Mateusz Porzucek

Íslenski landsliðmarkvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson fékk tækifærið í kvöld þegar Brentford komst áfram i enska deildabikarnum eftir 2-0 sigur á Bournemouth í slag tveggja úrvalsdeildarliða.

Ensku úrvalsdeildarfélögin Brentford, Wolves og Burnley komust áfram í kvöld en Íslendingaliðin Birmingham, Preston og Stockport County eru aftur á móti úr leik.

Hákon Rafn spilaði allan leikinn í marki Brentford og hélt marki sínu hreinu. Írinn Caoimhin Kelleher hefur spilaði tvo fyrstu leikina í ensku úrvalsdeildina og hélt líka markinu hreinu um síðustu helgi.

Fabio Carvalho kom Brentford í 1-0 á 34. mínútu og Igor Thiago bætti við öðru marki á 65. mínútu.

Varamaðurinn Jörgen Strand Larsen var maðurinn á bak við 3-2 endurkomusigur Wolves á West Ham.

West Ham var 2-1 yfir þegar Larsen kom inn á sem varamaður á 73. minútu.

Hann skoraði tvívegis með tveggja mínútna millibili, á 82. og 84. mínútu, og tryggði Úlfunum sæti í næstu umferð.

Rodrigo Gomes kom Úlfunum í 1-0 á 43. mínútu en mörk frá Tomas Soucek (50. mínúta) og Lucas Paquetá (63. mínúta) snemma í seinni hálfleik kom West Ham í forystu.

Burnley vann 2-1 sigur á Derby en Oliver Sonne skoraði sigurmarkið í uppbótatíma.

Benoný Breki Andrésson var í byrjunarliði Stockport County í 1-0 tapi á útivelli á móti Wugan. Benoný Breki spilaði allan leikinn en sigurmark Wigan kom á 84. mínútu.

Alfons Sampsted var einnig í byrjunaliði Birmingham sem tapaði 1-0 á heimavelli á móti Port Vale. Jaheim Headley skoraði sigurmarkið á lokamínútu fyrri hálfleiks en Alfons var tekinn af velli í hálfleik.

Stefán Teitur Þórðarson og félagar í Preston North End töpuðu 3-2 á heimavelli á móti Wrexham. Kieffer Moore skoraði sigurmarkið í uppbótatíma. Stefán Teitur lék allan leikinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×