Lífið

Loni Ander­son er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Loni Anderson var þekktust fyrir hlutverk sitt í  gamanþáttunum WKRP in Cincinnati.
Loni Anderson var þekktust fyrir hlutverk sitt í gamanþáttunum WKRP in Cincinnati. AP

Bandaríska leikkonan Loni Anderson, sem þekktust er fyrir hlutverk sitt sem móttökuritari útvarpsstöðvar í gamanþáttunum WKRP in Cincinnati, er látin. Hún lést á sjúkrahúsi í Los Angeles í gær, 79 ára að aldri.

AP greinir frá því að Cheryl J. Kagan, útgefandi Anderson til fjölda ára, hafi greint frá andlátinu, en Anderson hafði glímt við veikindi um nokkurt skeið.

Þættirnir WKRP in Cincinnati voru framleiddir á árunum 1978 til 1982 og fjölluðu um útvarpsstöð í Ohio sem á undir högg að sækja og hvernig starfsmenn hennar sem reyna að bjarga stöðinni með því að spila rokktónlist. Auk Anderson léku Gary Sandy, Tim Reid, Howard Hesseman, Frank Bonner og Jan Smithers í þáttunum.

Anderson fór í þáttunum með hlutverk móttökuritarans Jennifer Marlowe og hlaut hún tvær tilnefningar til Emmy-verðlauna og þrjár til Golden Globe-verðlauna.

Loni Anderson ásamt þáverandi eiginmanni sínum Burt Reynolds. AP

Anderson fór einnig með hlutverk í kvikmyndinni Stroker Ace frá árinu 1983 þar sem hún lék á móti Burt Reynolds. Anderson og Reynolds gengu síðar í hjónaband og eignuðust soninn Quinton Reynolds, en þau skildu árið 1994. Mikið var fjallað um skilnaðinn á síðum slúðurblaðanna á sínum tíma, en Anderson gekk alls fjórum sinnum í hjónaband.

Anderson lætur eftir sig eiginmanninn Bob Flick, sem hún giftist árið 2008, börnin Deirdra og Quinton, stjúpson og barnabörn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.