Innlent

Dæmdur fyrir að flytja kratom til landsins

Jón Þór Stefánsson skrifar
Kratom er unnið úr laufum.
Kratom er unnið úr laufum. Getty

Karlmaður hefur verið dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að flytja rétt rúm tvö kíló af fíkniefnum til landsins. Efnið sem maðurinn flutti hingað til lands heitir kratom.

Í ákæru segir að maðurinn hafi flutt efnin í pakka sem var sendur hingað til lands. Tollgæslan stöðvaði og haldlagði efnin í vöruhúsi á Keflavíkurflugvelli í janúar í hitteðfyrra.

Fram kemur að styrkleiki efnana hafi verið 1,2 prósent. Kratom, eða mítragýnín, er unnið úr laufum ákveðinna trjáa. Efnið er sagt valda svipuðum áhrifum og ópíóðar.

Maðurinn játaði skýlaust sök. Hann hlaut líkt og áður segir þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm, og þarf að greiða tæplega 300 þúsund krónur í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×