Hin rúmlega hundrað ára gamla herrafataverslun Guðsteins Eyjólfssonar, lokaði dyrum sínum á Laugavegi í hinsta sinn í mars á þessu ári. Verslunin hafði verið til húsa á Laugavegi 34 í nánast hundrað ár. Húsið var teiknað fyrir sjálfan Guðstein og hafði allt frá upphafi verið starfrækt herrafataverslun á jarðhæð hússins.
Guðsteinn bjó með fjölskyldu sinni á þriðju hæðinni. Húsið var friðað af menntamálaráðherra 19. maí 2011. Sjá nánar á vef Minjastofnunar.
Mikillar óánægju gætir með þessa þróun mála á Facebook-síðunni Íbúar í Miðborg. Íbúi vakti þar athygli á því að byrjað væri að mála yfir myndina, og þegar þetta er skrifað hafa um 98 manns brugðist við færslunni á þeim fimmtíu mínútum síðan hún fór inn á síðuna.
Flestir hafa brugðist við með grátbroskallinum, 61, en þar á eftir fylgir þessi sem er hissa, wow-broskallinn með 25.
Búið að gera ráðstafnir til að setja aftur upp myndina
Sigríður Jónsdóttir, sem rekur verslunina Aff Concept store og leigir Laugaveg 34, segir að verið sé að sinna viðhaldi, og búið sé að gera ráðstafanir til að setja veggmyndina aftur upp. Æsingurinn sé því byggður á misskilningi.
„Það þarf að fara í viðhald á veggnum, þess vegna þarf að mála hann og fara yfir þetta. Síðan verður hún sett aftur upp.“
Eigendur verslunarinnar neyddust til að loka útibúinu við Laugaveg í mars síðastliðnum. Þau kenndu slæmum aðstæðum um, þeim að Laugavegurinn væri lokaður fyrir bílaumferð að stórum hluta.