Innlent

Enok sak­felldur

Jón Þór Stefánsson skrifar
Önnur árásin sem Enok er dæmdur fyrir átti sér stað á Lebowski bar.
Önnur árásin sem Enok er dæmdur fyrir átti sér stað á Lebowski bar. Vísir

Enok Vatnar Jónsson, sjó- og athafnamaður, hefur hlotið sex mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundinn til tveggja ára í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna tveggja líkamsárása. Annar maður, sem var ákærður fyrir að fremja aðra líkamsárásina ásamt Enoki hlýtur fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm.

Mönnunum var gefið að sök að veitast að ofbeldi að Bersa Torfasyni við skemmtistaðinn Lebowski bar og í portinu við Kaffibrennsluna í miðbæ Reykjavíkur í júní 2022.

Þeir voru ákærðir fyrir að veita Bersa ítrekuð hnefahögg í andlit, höfuð og líkama, og sparka ítrekað í líkama hans. Síðan var Enok gefið að sök að fleygja honum niður tröppur og þeir síðan sagðir báðir sparka ítrekað í hann í kjölfarið og traðka á höfði hans þar sem hann lá.

Bersi þessi hlaut dóm snemma á þessu ári fyrir að stinga Enok sex mánuðum áður en Enok réðst á hann.

Sjá nánar: Hljóp á eftir stungumanninum með inn­yflin lafandi út úr sér

Hin ákæran gegn Enoki var vegna líkamsárásar í byrjun júlí árið 2021 á skemmtistaðnum 203. Honum var gefið að sök að veitast með ofbeldi að öðrum manni og slá hann fjórum höggum í andlitið.

Vísir fjallaði ítarlega um aðalmeðferð málsins. Hægt er að lesa nánar um það hér.

Ekkert bendi til þess að Enok hafi verið skelkaður

Varðandi fyrri ákæruliðinn neitiðu báðir sök. Verjandi Enoks hélt því fram fyrir dómi að umbjóðandi hans hefði verið skelkaður við Bersa vegna fyrri árásar hans, og að um sjálfsvörn hafi verið að ræða.

Í dómnum segir að ekkert í málinu bendi til þess að tvímenningarnir hafi verið skelkaðir og að um neyðarvörn hafi verið að ræða. Ekkert slíkt eigi við í málinu.

Ólíklegt að þau hafi sammælst um að bera hann rangri sök

Varðandi seinni ákæruliðinn vildi Enok meina að hann hefði verið hafður fyrir rangri sök. Hann sagðist ekki hafa verið á 203 Club kvöldið sem árásin var framin.

 Dómnum þótti framburður vitna og þess sem varð fyrir árásinni hafa veriði trúverðgur, en þau sögðu Enok hafa verið að verki.

Eitt þessara vitna þekkti Enok frá fyrri samskiptum við hann og þótti dómnum því afar ólíklegt að hún hefði farið mannavillt.

Þá þykir dómnum afar ólíklegt að vitnin og brotaþolinn hafi sammælst um að bera Enok röngum sökum.

Aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur.Vísir/Vilhelm

Undirrót árásarinnar hefnd

Líkt og áður segir hlýtur Enok sex mánaða skilorðsbundinn dóm. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess að allt bendi til þess að undirrót brotsins gegn Bersa hafi verið hefnd.

Enoki er gert að greiða öðrum brotaþolanum 478 þúsund krónur í miskabætur og 500 þúsund í málskostnað og hinum brotaþolanum 500 þúsund krónur í miskabætur og 900 þúsund í málskostnað. Hinum sakborningnum er gert að greiða brotaþolanum 450 þúsund krónur í miskabætur og 500 þúsund í málskostnað.

Þar að auki þarf Enok að greiða rúmar 2,5 milljónir í sakarkostnað. Og hinn sakborningurinn tæplega 1,6 milljónir króna.

Fréttin hefur verið uppfærð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×