Í fréttatilkynningu frá háskólanum segir að metaðsókn hafi verið í hjúkrunarfræði með ellefu prósent fjölgun umsókna milli ára. Þá sé fjölgun í sálfræði, en þreyta þurfi inntökupróf í báðar námsleiðirnar og einungis hluti umsækjanda komist að.
Fram kemur að fjölgun umsókna í Kennaradeild er um 22 prósent. Það sé mesta fjölgun deildar á milli ára. Vakin er athygli á að þrjátíu eru ár síðan Kennaradeild HA var stofnuð, meðal annars með það að markmiði að fjölga kennaramenntuðu fólki á landsbyggðunum.
„Á tæpum 20 árum hefur náðst árangur hvað það varðar og hlutfall menntaðra kennara í grunnskólum á Norðurlandi eystra farið úr sjötíu prósent í tæp níutíu prósent og í leikskólum hefur hlutfallið hækkað um tíu prósent.“
Þá hafi aldrei borist fleiri umsóknir í líftækni og Háskólinn á Akureyri er eini háskóli landsins sem býður upp á BS gráðu í líftækni.
„Líftæknin er ört vaxandi svið, bæði hér á landi sem og á heimsvísu. Fjölgun umsókna endurspeglar þann mikla vöxt. Ég held að fjölgunin sé í takt við þau fjölbreyttu störf sem bíða stúdenta að námi loknu enda er líftæknin breitt svið. Á undanförnum árum hafa fjölmörg líftæknifyrirtæki skotið upp kollinum á Íslandi og eftirspurn eftir útskrifuðum líftæknum er mikil,“ er haft eftir Auði Sigurbjörnsdóttur, dósent og tilvonandi deildarforseta við Auðlindadeild skólans.