Innlent

Lög­regla rann­sakar and­lát í Bolungar­vík

Ólafur Björn Sverrisson og Jón Þór Stefánsson skrifa
Íbúar í Bolungarvík sem fréttastofa hefur rætt við bíða þess að lögregla sendi frá sér tilkynningu um hvað gekk á í einbýlishúsi í bænum í dag.
Íbúar í Bolungarvík sem fréttastofa hefur rætt við bíða þess að lögregla sendi frá sér tilkynningu um hvað gekk á í einbýlishúsi í bænum í dag. vísir/arnar

Lögreglan á Vestfjörðum kallaði í kvöld eftir aðstoð tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur lögregla til rannsóknar andlát í Bolungarvík. Lögreglustjóri vill lítið sem ekkert tjá sig um málið.

Samkvæmt heimildum fréttastofu rannsakar lögregla vettvang í einbýlishúsi á einni hæð við Hlíðarveg í Bolungarvík þar sem par hefur búið. Lögreglubílar með blikkandi ljós og sjúkrabíll renndu í hlað á sjöunda tímanum.

Helgi Jensson, lögreglustjóri á Ísafirði staðfestir að mál sé til rannsóknar.  Mbl.is greindi fyrst frá aðkomu tæknideildarinnar. Helgi lögreglustjóri vill hins vegar lítið sem ekkert tjá sig um málið.

Það virðist til marks um alvarleika málsins að ákveðið var að óska eftir tæknideild lögreglu og það með hraði. Þyrla Landhelgisgæslunnar var ræst út. Samkvæmt heimildum fréttastofu sáust lögreglumenn fara inn í húsið með því að fjarlægja spónaplötu sem sett var fyrir glugga í vetur þegar rúða sprakk í óveðri.

„Þeir eru að aðstoða okkur í máli sem við erum að rannsaka. Það er nýkomið upp og ég get ekki sagt meira en það,“ segir Helgi lögreglustjóri spurður út í aðkomu tæknideildarinnar.

Er um sakamál að ræða?

„Ég vil ekki segja neitt meira á þessu stigi. Þetta er bara á algjöru frumstigi, mínir menn eru bara að vinna í því, ég gef þeim frið til að skoða aðeins áður en við gefum eitthvað upp.“

Er um viðkvæmt mál að ræða?

„No comment.“

Að sögn Ásgeirs Erlendssonar upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar barst þeim tilkynning um málið um klukkan átta. Tæknideild lögreglunnar var flogið með þyrlunni í framhaldinu. Ásgeir gat sömuleiðis ekki veitt neinar frekari upplýsingar um málið þegar eftir því var leitað.

„Okkar hlutverk var bara að fljúga vestur,“ segir Ásgeir.

Veistu meira um málið? Fréttastofa tekur við öllum ábendingum og myndum á netfangið ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×