Innlent

Enginn einn fram­bjóðandi aug­ljós keppi­nautur Katrínar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur.
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur.

Prófessor í stjórnmálafræði segir nokkuð flókna stöðu vera að málast upp í aðdraganda forsetakosninga. Enginn einn frambjóðandi hafi markað sér stöðu sem augljós keppinautur Katrínar Jakobsdóttur. 

Samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup er Katrín Jakobsdóttir með nokkuð afgerandi forskot á aðra frambjóðendur til forseta. Samkvæmt könnuninni, sem birtist í gær og var gerð 17. til 23. maí, mælist Katrín með 27 prósenta fylgi.

Þar á eftir koma Halla Hrund Logadóttir, Baldur Þórhallsson og Halla Tómasdóttir með 17 til 19 prósent. Ekki er tölfræðilega marktækur munur á þeim þremur. Jón Gnarr er næstur, með níu prósent og Arnar Þór Jónsson með sjö. Aðrir frambjóðendur mælast með um eða undir eitt prósent.

Prófessor í stjórnmálafræði segir mikla baráttu um hver geti markað sér stöðu sem augljós keppinautur Katrínar um embættið.

„Halla Hrund rauk upp í könnunum, en féll aftur niður og Halla Tómasdóttir hefur verið á mikilli siglingu. Á sama tíma hefur Baldur nokkuð staðið í stað. En kannski eru stóru fréttirnar, fyrir utan forystu Katrínar, að enginn þessara þriggja er alveg augljós keppinautur,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði.

Staðan sé því flóknari en ef um tveggja turna tal væri að ræða.

„Miðað við stöðuna í könnunum í augnablikinu, þá er erfitt fyrir þá kjósendur sem vilja koma í veg fyrir að Katrín Jakobsdóttir verði forseti, að ákveða hvaða frambjóðandi ætti þá að verða fyrir valinu sem hennar helsti keppinautur, því þar hafa orðið töluverðar sviptingar í fylginu.“


Tengdar fréttir

Katrín að taka afgerandi forystu

Katrín Jakobsdóttir mælist með 27 prósent fylgi fyrir komandi forsetakosningar í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup. Það er talsvert meira en aðrir frambjóðendur, en enginn annar nær yfir tuttugu prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×