Innlent

Líf­leg og skraut­leg kosninga­bar­átta að mati for­sætis­ráð­herra

Kjartan Kjartansson skrifar
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, gefur ekkert upp um hvern hann ætli að kjósa sem forseta.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, gefur ekkert upp um hvern hann ætli að kjósa sem forseta. Vísir/Ívar

Kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar hefur verið lífleg og á köflum skrautleg, að dómi Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra. Hann segist hafa tilfinningu fyrir hvern hann ætli að kjósa en vill ekki gefa það upp til að gera kosningarnar ekki enn pólitískari en ella.

Bjarni tók við sem forsætisráðherra þegar Katrín Jakobsdóttir sagði af sér til þess að fara í forsetaframboð í síðasta mánuði. Hann segir kosningabaráttuna nú eina þá eftirminnilegustu sem leiði kannski af því að sitjandi forseti gefi ekki kost á sér til endurkjörs.

„Þetta hefur verið líflegt og á köflum dálítið skrautlegt. Það er auðvitað einkennandi hversu margir eru þátttakendur í kapphlaupinu um að komast á Bessastaði. Það er kannski það sem stendur ekki síst upp úr,“ sagði Bjarni við fréttamann Stöðvar 2 eftir blaðamannafund ríkisstjórnarinnar vegna aðgerða fyrir Grindvíkinga í dag.

Sjálfur sagðist Bjarni vera kominn með tilfinningu fyrir því hvað hann ætlaði að gera í kjörklefanum en vildi ekki segja hvern hann ætlaði að kjósa. Hann vilji forðast að gera kosningarnar pólitískar þó að erfitt væri að forðast það með öllu í ljósi þess að fyrrverandi forsætisráðherra væri í framboði.

„Þá finnst mér kannski óþarfi að bæta á með því að taka skýra afstöðu sem formaður stjórnmálaflokks,“ sagði Bjarni.

Klippa: Með eftirminnilegri kosningabaráttum


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×