Innlent

Kennir ráð­herrum siða­reglurnar áður en hún hættir

Árni Sæberg skrifar
Eyja Margrét J. Brynjarsdóttir, stjórnarformaður Siðfræðistofnunar, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Katrín Jakobsdóttir, starfandi forsætisráðherra.
Eyja Margrét J. Brynjarsdóttir, stjórnarformaður Siðfræðistofnunar, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Katrín Jakobsdóttir, starfandi forsætisráðherra. STJÓRNARRÁÐ ÍSLANDS/ANTON BRINK

Forsætisráðuneytið hefur gefið út handbók um siðareglur ráðherra. Handbókin var samin af Siðfræðistofnun Háskóla Íslands að beiðni forsætisráðuneytisins og í samvinnu við ráðuneytið. Í handbókinni eru settar fram skýringar á siðareglum ráðherra ásamt raunhæfum dæmum um túlkun þeirra.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að í handbókinni sé bæði leitast við að gera grein fyrir siðferðilegri þýðingu einstakra greina og útlista hvaða kröfur þær fela í sér. Markmið með handbókinni sé að veita ráðherrum leiðbeiningar um efni siðareglnanna til að styðja við siðferðilega umhugsun.

Ríkisstjórnin samþykkti siðareglur ráðherra þann 5. desember 2023. Þær hafi verið birtar í B-deild Stjórnartíðinda þann 8. desember sama ár. Siðareglur ráðherra veiti leiðsögn um það hvers konar framganga hæfir svo veigamiklu embætti en jafnframt gefi þær almenningi færi á að bera hegðun ráðherra saman við skráðar og útgefnar reglur. Þeim sé ætlað að stuðla að trausti almennings á stjórnsýslunni.

Handbók um siðareglur ráðherra má lesa hér.

Siðfræðistofnun fengið sjö milljónir króna

Síðasta sumar var greint frá því að forsætisráðuneytið og Háskóli Íslands, fyrir hönd Siðfræðistofnunar, hafi gert með sér samning um ráðgjöf stofnunarinnar til stjórnvalda um siðferðisleg efni og gerð kennsluefnis um siðareglur. Samningurinn gildir til tæplega eins árs og kostar stjórnvöld alls sjö milljónir króna.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins sagði að siðfræðistofnun myndi, í samvinnu við forsætisráðuneytið, vinna að gerð kennsluefnis, námskeiða og handbóka um siðareglur ráðherra og siðareglur starfsfólks Stjórnarráðsins. Þá yrðu skipulögð málþing um siðareglur og siðferði í opinberum störfum annars vegar og um gervigreind hins vegar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×