Innlent

Katrín með for­skot á Baldur

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sjö efstu frambjóðendurnir samkvæmt skoðanakönnun Maskínu.
Sjö efstu frambjóðendurnir samkvæmt skoðanakönnun Maskínu. Vísir/Hjalti

Katrín Jakobsdóttir forsetaframbjóðandi og forsætisráðherra er með 33 prósent fylgi samkvæmt nýrri skoðanakönnun Maskínu. Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði og mótframbjóðandi mælist með 27 prósenta fylgi.

Þetta kemur fram í glænýrri könnun um fylgi frambjóðenda í komandi forsetakosningum. Samkvæmt henni mælast Katrín og Baldur hæst: Katrín með 32,9% fylgi, Baldur með 26,7% fylgi. Þar á eftir kemur Jón Gnarr með 19,6% og Halla Tómasdóttir þar á eftir með 7,3%. 

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, mælist þá með 5,7% fylgi, Arnar Þór Jónsson lögmaður með 3,2% og Steinunn Ólína með 1,9%. Aðrir frambjóðendur ná ekki eins prósenta fylgi. Í þeim hópi er Ástþór Magnússon með 0,6%, Sigríður Hrund Pétursdóttir með 0,5%, Helga Þórisdóttir með 0,4%, Guðmundur Felix Grétarsson með 0,2%.

Þetta er nokkur viðsnúningur frá skoðanakönnun sem gerð var 3. apríl síðastliðin af Prósent fyrir stuðningsfólk Baldurs. Þá mældist Baldur með 27% atkvæða og Katrín með 17%. Það ber þó að taka inn í myndina að Katrín var ekki búin að tilkynna framboð sitt á þeim tíma. 

Könnun Maskínu svöruðu 819 og fór hún fram dagana 5. til 8. apríl. Halla Hrund Logadóttir tilkynnti framboð sitt í gær, þegar langt var liðið á könnunina.

Tæpur helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokks kysi Katrínu

Fram kemur í könnuninni að meðal kjósenda Sjálfstæðisflokks er Katrín langvinsælust frambjóðenda. Af þeim sem kysu Sjálfstæðisflokkinn myndu 44,2% kjósa Katrínu. 14,8% þeirra kysu Baldur, 19,9% Jón Gnarr, 7,2% Höllu  Tómasdóttur og 2,8% Höllu Hrund. 

Katrín er jafnframt vinsælust frambjóðenda meðal kjósenda Framsóknar. Þar myndi 42,1% kjósa Katrínu, 10,4% Baldur, 11,9% Jón, 12% Höllu Tómasdóttur, og 19,4% Höllu Hrund. Katrín ber höfuð og herðar yfir aðra frambjóðendur meðal kjósenda sinna í VG. Þar mælist hún með 93,1% fylgi. Baldur mælist meðal þeirra með 5,1% og afgangur atkvæða skiptist milli annarra frambjóðenda.

Af kjósendum Flokks fólksins myndu 16,5% kjósa Katrínu, 29% kjósa Baldur, 10,2% myndu kjósa Jón, 17,4% myndu kjósa Höllu Tómasdóttur og 5,7% Höllu Hrund. Miðflokksmenn eru einnig hrifnastir af Katrínu, sem fengi 30,9% atkvæða þeirra. Þar á eftir mælist Jón Gnarr með 28%, Baldur með 16,6%, Halla Tómasdóttir með 9,1% og Halla Hrund 3,9%.

Katrín og Baldur skipta milli sín atkvæðum Jafnaðarmanna, Katrín með 34,1% og Baldur með 34,9. Jón mælist þar með 15,8%, Halla Tómasdóttir með 4,5% og Halla Hrund 5,1%. Kjósendur Sósíalista eru hrifnastir af Baldri. 40,1% þeirra myndi kjósa hann, 17,2% myndu kjósa Jón og 9,5% Höllu Tómasdóttur.

Þá er Katrín langsamlega vinsælust meðal kjósenda Viðreisnar. 39,5% þeirra myndu kjósa hana, 23% Baldur, 21% Jón, 11,7% Höllu Tómasdóttur og 3,1% Höllu Hrund. Kjósendur Pírata eru langsamlegast hrifnir af Baldri, 42,2% þeirra myndu kjósa hann. Þar á eftir kemur Jón með 35,4% og svo Katrín með 12,2%. Höllu Hrund myndu 5,1% kjósenda Pírata kjósa.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Katrín ekki lengur þing­maður

Katrín Jakobsdóttir, fráfarandi forsætisráðherra, er ekki lengur þingmaður. Hún sagði af sér þingmennsku í dag með bréfi sem hún sendi forseta Alþingis. Hann hóf þingfundinn í dag á því að lesa bréfið upp. 

Guðni hafi „skemmt“ hug­myndir um fram­boð

Páll Pálsson fasteignasali hyggst ekki bjóða sig fram til forseta lýðveldisins í kosningunum fyrsta dag júnímánaðar. Þetta staðfestir Páll í samtali við fréttastofu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×