Innlent

Þessir lík­legastir til að ná í gegn í bar­áttunni um Bessa­staði

Jakob Bjarnar skrifar
Baráttan um Bessastaði með augum skopteiknarans og bridge-snillingsins Aðalsteins Jörgensen.
Baráttan um Bessastaði með augum skopteiknarans og bridge-snillingsins Aðalsteins Jörgensen. Aðalsteinn Jörgensen

Aðalsteinn Jörgensen briddsspilari með meiru dundar sér við að teikna í frístundum og nú slagurinn um Bessastaði efstur á blaði.

„Ég hef verði að dúllast í þessu að gamni mínu, myndir af spilurum og fjölskyldu og ég fór að leika mér að þessu í morgun,“ segir Aðalsteinn í samtali við Vísi.

Hann segist vera búinn að gera upp hug sinn, hvað hann kýs en það sé nú bara fyrir hann að vita.

Aðalsteinn notar teikniforrit og svo hefur gervigreindin komið inn sem gerir þetta allt miklu þægilegra. En hann verður að vita hvað hann vill og hvað hann er að gera.

„Ég byrjaði á að svæla út mynd af Bessastöðum, breyti þeirri ljósmynd í teiknaða mynd,“ segir Aðalsteinn og lýsir því að andlitin sem hann finnur á netinu séu misjafnlega skýr. Og stundum þarf hann að draga þau í gegnum teikniforrit.

Aðalsteinn Jörgensen dundar sér við að teikna í frístundum og hann náði að kjarna baráttuna um Bessastaði í sinni nýjustu myndi.facebook

„Fyrsta hugmyndin var sú að þarna væru tveir menn að skilmast. Og það væru þá Jón Gnarr og Baldur Þórhallsson. Svo er náttúrlega Felix Bergsson með í pakkanum. Svo kemur Katrín Jakobsdóttir í rólegheitum í fallhlíf og hirðir þetta. En svo þurfti fylla betur út í myndina.“

Aðalsteinn telur að þeir níu sem séu á myndinni séu svona þeir sem muni eitthvað láta að sér kveða í kosningunum. Þó 70 séu enn á lista yfir þá sem eru að safna undirskriftum.

„Jújú, maður er að gera það,“ segir Aðalsteinn þegar hann er spurður um bridge-inn. „Ég er enn í landsliðinu en ég ætlaði að vera löngu hættur. Þarna ´91, þegar við urðum heimsmeistarar, var ég bara um þrítugt. Þeir félagar mínir voru um, Guðlaugur R. Jóhannsson og Örn Arnþórsson voru 45 um og ég skildi ekki hvað þeir voru að gera í liðinu, mér fannst þeir svo gamlir. En nú er ég orðinn 64 ára og enn er ég í liðinu,“ segir Aðalsteinn og hlær að því hversu viðhorf manns gegn aldri vilja breytast með tímanum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×