Innlent

„Við erum með tvo trukka og þeir fara mjög hægt yfir“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Einar Sveinn Jónsson er slökkviliðsstjóri í Grindavík.
Einar Sveinn Jónsson er slökkviliðsstjóri í Grindavík. Vísir/Arnar

Slökkvilið í Grindavík berst enn við gróðurelda við gosstöðvarnar við Sundhnjúkagíga. Slökkviliðsstjórinn segir svæðið afar torfærið og að slökkviliðstrukkar fari hægt yfir svæðið. 

„Einbeita okkur að svæði sem er vestan megin við gíginn, milli Hagafells og Sundhnjúka. Þetta er ágætlega stórt svæði, einhver hundruð metra, erfitt að gera sér grein fyrir því nákvæmlega því þetta er svo mishæðótt,“ segir Einar Sveinn Jónsson slökkviliðsstjóri í Grindavík, sem fer fyrir um 15 manna hópi sem berst nú við eldana. 

Í fyrradag lauk slökkviliðið slökkvistarf og fyrirbyggjandi ráðstafanir vegna gróðurelda austan við gígana. Þá hafði Einar orð á því að svæðið væri erfitt yfirferðar. Svæðið vestan við gíginn er jafnvel enn torfærara.

„Við erum með tvo trukka og þeir fara mjög hægt yfir, en komast þetta þó. Svo þarf að leggja langar slöngulagnir til að eiga við þetta,“ segir Einar. 

Um er að ræða glóðarbruna í gróðrinum, sem Einar segir magnast upp í strekkingsvindi eins og nú er á svæðinu. 

„Þetta er ein löng lína sem við erum að kljást við,“ segir Einar, en aðgerðir slökkviliðs á þessu svæði hafa staðið yfir síðan í gær. Hann segir gróðureldana ekki enn nálægt því að ná sömu stærð og gerðist við gosstöðvarnar í fyrra. Nú hafi verið brugðist fyrr við og verklag vegna slíkra elda sé mönnum afar ferskt í minni. 


Tengdar fréttir

Sennilega þeir einu sem vilja rigningu um páskana

Eldgosið norðan Grindavíkur mallar enn eins og það hefur gert síðustu daga. Mikill þurrkur er á svæðinu svo kviknað hefur í gróðri á gosstöðvunum. Slökkviliðsmenn í Grindavík eru sennilega í minnihluta fólks sem vill að það rigni um páskana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×