Innlent

Veru­lega brugðið yfir Hamraborgarmálinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands.
Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands. Vísir/Arnar

Lögregla leitar enn að tveimur þjófum sem stálu tugum milljóna króna úr bíl Öryggismiðstöðvarinnar í fyrradag. Þónokkrar vísbendingar hafa borist en lögregla virðist engu nær. Forstjóra Happdrættis Háskóla Íslands, sem á féð, er verulega brugðið og reiknar með að verklagi verði breytt vegna málsins.

Starfsmenn Öryggismiðstöðvarinnar voru að sækja spilakassafé fyrir Happdrætti Háskólans inni á barnum Catalinu í Hamraborg í fyrradag þegar þjófarnir tveir brutust inn í bíl þeirra og stálu peningum sem var nýbúið að sækja af Vídjómarkaðnum hinum megin við götuna.

„Okkur var verulega brugðið enda er þetta óvenjulegur atburður og fátítt í okkar samfélagi. En á móti var manni svo létt þegar maður frétti það að það hefði enginn slasast í þessu innbroti. Þetta er einstakt og kannski svolítið ógnvekjandi fyrir vikið líka,“ segir Bryndís Hrafnkelsdóttir, forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands.

Fram kemur á heimasíðu Öryggismiðstöðvarinnar að við verðmætaflutninga sé fyllsta öryggis gætt með „sérhæfðri þjálfun“ og öryggisverðir og bílar séu búnir „öflugum varnar- og samskiptabúnaði“. Þó liggur fyrir að þjófarnir voru aðeins tæpa mínútu að brjótast inn í bíl Öryggismiðstöðvarinnar og hafa peningana á brott.

Bryndís segir samstarfið við Öryggismiðstöðina hafa verið gott. Ekki sé horft til þess að endurskoða það samstarf.

„Við munum fara yfir alla ferla með þeim og ég býst við, eða það segir sig sjálft, að það verði gerðar breytingar á ferlum sem snúa beint að okkur og svo sem snúa að þeim innanhúss.“

Ekkert fjárhagslegt tjón

Það blasi þó við að þau hjá Happdrættinu hafi nú áhyggjur af því að mál af sama meiði komi upp í framtíðinni.

Að einhverjir aðrir úti í bæ séu að horfa og hugsi, þarna gætu leynst tækifæri? 

„Já, að sjálfsögðu og það er eðlilegt framhald. Og þess vegna erum við að eiga þetta samtal við Öryggismiðstöðina um hvernig sé hægt að efla þessi öryggismál í kringum þessa verðmætaflutninga og hvað hægt er að gera,“ segir Bryndís.

Lögregla segir að þjófarnir hafi stolið um tuttugu til þrjátíu milljónum króna en Bryndís vill ekkert staðfesta um upphæðina. Peningarnir voru tryggðir og Happdrættið verður því ekki fyrir neinu tjóni.

Og það hlýtur að vera talsverður léttir? 

„Já, þú getur rétt ímyndað þér það.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×