Innlent

„Galið að fara svona með opin­bert fé“

Jakob Bjarnar skrifar
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri i Hafnarfirði segir galið að setja 14 milljónir í verkefni sem þetta.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri i Hafnarfirði segir galið að setja 14 milljónir í verkefni sem þetta. vísir/vilhelm

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, gagnrýnir harðlega samning Sambands íslenskra sveitarfélaga við Höllu Gunnarsdóttur upplýsingafulltrúa.

„Þetta rann ekki beint smurt í gegn. En það var augljóst að það var búið að ákveða að svona yrði þetta fyrir fundinn. Það var ekkert hlustað á okkur þegar við hreyfðum við mótmælum,“ segir Rósa.

Illa farið með fé almennings

Vísir greindi frá því í morgun að SÍS hafi gert samning við Höllu Gunnarsdóttur um að hún myndi setja saman ferla sem gangi út á að taka við kvörtunum vegna „kjörinna áreitara og ofbeldisseggja,“ eins og segir í bréfi Höllu þar sem hún lýsir því hvað hún ætli að gera og hvað hún fái greitt. Hún segist vilja fá 23 þúsund krónur á tímann, aðstoðarmann og skrifstofuaðstöðu hjá sambandinu.

Rósa segir að svona nokkuð sé hægt að vinna með miklu hagkvæmari hætti.

„Það er verið að ætla alltof háa upphæð í þetta og tíma. Það er galið að setja 14 milljónir í verkefni sem þetta. Og það er galið að fara svona með peninga almennings.“

Lyktar af pólitískri fyrirgreiðslu

Rósa segir að til standi að greiða þennan reikning með fé úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem sé sérstakt.

„Þarna er illa farið með fé skattgreiðenda. Það hversu ákveðið þetta fór í gegn ber í mínum huga dám af pólitískri fyrirgreiðslu. Það er galið að fara svona með fjármuni. Og tíminn sem ætlaður er í þetta, hann bara stenst ekki.“

Rósa segir þetta ekki í nokkru samhengi við það sem hún þekki af svipuðum málum.

„Heima í héraði hefði maður fengið mannauðsstjóra og/eða öfluga sviðstjóra til að vinna svona mál. Ég man ekki eftir svona upphæðum þegar maður hefur þurft á aðkeyptri ráðgjöf að halda.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×