Innlent

Minnast þeirra sem hafa látist úr fíkni­sjúk­dómi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Dagbjört Ósk Steindórsdóttir og Gunnar Ingi Valgeirsson eru bæði í stjórn SAF. 
Dagbjört Ósk Steindórsdóttir og Gunnar Ingi Valgeirsson eru bæði í stjórn SAF.  Vísir/Steingrímur Dúi

Samtök aðstandenda og fíknisjúkra (SAOF) standa fyrir minningarathöfn í Dómkirkjunni síðdegis í dag til að minnast þeirra sem fallið hafa fyrir fíknisjúkdómi. Dagbjört Ósk Steindórsdóttir, ein stofnenda samtakanna, segir viðburðinn opinn og hefjast klukkan 17.

Dagbjört segir samtökin stefna á að halda þennan dag árlega. „Frændi minn dó á þessum degi úr sjúkdómnum,“ segir Dagbjört og að þau hafi verið mjög náin. Hann hafi aðeins verið 55 ára og hlakkað til að verða afi. Það sé ástæðan fyrir því að þessi dagur, 26. mars, hafi orðið fyrir valinu.

Hún segir að gert sé ráð fyrir því að athöfnin í kirkjunni verði um 40 mínútur að hámarki. Eftir það verði lagðar rósir við kirkjuna fyrir hvern sem hefur fallið úr fíknisjúkdómi. Eftir það taki Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, við og flytur „örvarp“.

„Hann fer með örvarp út í lofið og segir falleg orð út í kosmósið á sama tíma og við myndum hálfhring um tröppurnar,“ segir Dagbjört.

SAOF eru ný samtök sem voru stofnuð seint í fyrra. Að samtökunum standa þau Gunnar Ingi Valgeirsson, sem er með hlaðvarpið Lífið á biðlista, Guðlaug Baldursdóttir og Dagbjört Ósk Steindórsdóttir, sem báðar eru aðstandendur. Samtökin stóðu fyrir baráttufundi í desember og stofna nú þennan árlega minningardag. 


Tengdar fréttir

Gerðist glæpamaður til að bjarga lífi sonar síns

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir byrjar hvern einasta dag á því að kíkja á símann til að athuga hvort lögreglan eða spítalinn hafi hringt í hana. Sonur hennar hefur verið í mikilli neyslu síðustu sextán árin. Hún segist óttast framhaldið og vilja sjá betri úrræði fyrir fólk í hans stöðu. 

„Mig vantar hjálp en hún er ekki í boði“

„Mig vantar hjálp en hún er ekki í boði,“ segir viðmælandi Gunnars Inga Valgeirssonar, í viðtalsþættinum Lífið á biðlista. Viðmælandinn er karlmaður sem kýs að vera nafnlaus. Hann er heimilislaus í virki neyslu en dreymir um betra líf til að geta verið til staðar fyrir fjölskyldu sína og vini. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×