Innlent

Nýtt merki Sam­fylkingarinnar hlaut gullið

Árni Sæberg skrifar
Frá afhjúpun rósarinnar í Kaplakrika þann 4. mars í fyrra.
Frá afhjúpun rósarinnar í Kaplakrika þann 4. mars í fyrra. Samfylkingin

Samfylkingin vann gullverðlaun í flokknum Firmamerki á FÍT-verðlaununum sem veitt voru síðastliðinn föstudag. Þá vann Samfylkingin jafnframt til silfurverðlauna í flokknum Mörkun fyrirtækja. Nýtt merki og nýtt útlit flokksins var tekið í notkun í mars á síðasta ári og hannað af Sigurði Oddssyni sem er grafískur hönnuður og hönnunarstjóri í New York.

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Samfylkingunni. Þar segir að í umsögn dómnefndar segi að að merki Samfylkingarinnar sé „nútímaleg útfærsla á alþjóðlegu tákni í teiknistíl sem er eftirtektarverður“. Iceland Innovation Week og Orka hafi hlotið silfurverðlaun fyrir sín merki en engin gullverðlaun hafi verið veitt í flokknum Mörkun fyrirtækja.

Rósin skipti máli

„Þetta skiptir okkur máli. Rósin skiptir okkur máli og við viljum að allir Íslendingar viti fyrir hvað þessi rós stendur. Það er mikilvægt fyrir Samfylkinguna að halda sterkri tengingu við yfir hundrað ára sögu og sigurgöngu jafnaðarstefnunnar, sem hefur getið af sér farsælustu samfélög í heiminum. Við óskum Sigurði Oddssyni hjartanlega til hamingju með þessa viðurkenningu og þökkum honum fyrir einstaklega vel unnið verk og gott samstarf,“ er haft eftir Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar.

Takn andófs gegn kúgun og gerræði

Tillaga um nýtt merki sem væri rauð rós, alþjóðlegt tákn sósíaldemókrata, var lögð fram af formanni stjórnar verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar og samþykkt á landsfundi flokksins haustið 2022 þegar Kristrún var kjörin formaður. Nýja merkið var svo afhjúpað ásamt nýju útliti á flokksstjórnarfundi í Hafnarfirði vorið 2023.

„Við kynningu merkisins kom fram að rauða rósin ætti sér langa sögu sem tákn fyrir andóf gegn kúgun og gerræði. Sagt hefur verið að rauði liturinn tákni baráttuna gegn veraldlegri fátækt en að rósin sjálf sé tákn fyrir baráttu gegn andlegri fátækt,“ segir í tilkynningu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×