Innlent

Tíu póst­húsum vítt og breitt um land lokað í sumar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Pósthúsið í Búðardal er eitt af þeim pósthúsum sem verður lokað í byrjun júní.
Pósthúsið í Búðardal er eitt af þeim pósthúsum sem verður lokað í byrjun júní. Vísir/Vilhelm

Til stendur að loka tíu pósthúsum Póstsins í sumar. Um er að ræða fjögur pósthús á Austfjörðum, fjögur á Norðurlandi, eitt á Vesturlandi og eitt á Vestfjörðum. Sendingar verða í staðinn afgreiddar af bílstjórum póstbíla og í póstboxum.

Þetta segir í tilkynningu frá Póstinum. Þar segir að fimm samstarfspósthúsum Póstsins og jafn mörgum pósthúsum í eigin rekstri verði lokað í byrjun júní. 

Pósthúsin sem um ræðir eru á Hvammstanga, Siglufirði, Dalvík, Ólafsfirði, Búðardal, Grundarfirði, Fáskrúðsfirði, Eskifirði, Breiðdalsvík og Neskaupstað.

Á flestum þessara staða er þegar komið upp póstbox en í Búðardal, Ólafsfirði, á Breiðdalsvík og Siglufirði verða sett upp póstbox í næsta mánuði.

Pósthúsin loka í þessum bæjarfélögum.vísir

Póstbox og póstbíll á ferðinni

„Dregið hefur úr eftirspurn eftir afgreiðsluþjónustu pósthúsa. Þar af leiðandi er lagt upp úr að þróa annars konar lausnir,“ segir Kjartan Flosason, forstöðumaður pósthúsa. Nú sé einnig hægt að póstleggja sendingar í póstboxin sem eru opin allan sólarhringinn.

Póstbíllinn verði líka á ferðinni á þessum stöðum og boðið upp á heimsendingarþjónustu á Hvammstanga, Dalvík, Breiðdalsvík og í Ólafsfirði. Sú þjónusta hafi fyrir breytingarnar ekki verið í boði.

„Breytingarnar hafa áhrif á sex stöðugildi. Nokkrum starfsmönnum var boðið annars konar starf eða flutningur. Ég vil þakka því góða starfsfólki sem nú lætur af störfum og óska því góðs gengis í næstu verkefnum,“ segir Kjartan.


Tengdar fréttir

Póst­hús­af­greiðslu í Bolungar­vík lokað

Pósthúsafgreiðsla í Bolungarvík lokar frá og með 1. september næstkomandi. Þjónustupósthús Bolungarvíkur verður Pósthúsið á Ísafirði. Þá verður áfram póstþjónusta en hún verður með breyttu sniði.

Póst­boxum fjölgar á Vest­fjörðum

Nýjum póstboxum hefur verið komið fyrir í sex bæjarfélögum á Vestfjörðum, á Patreksfirði, Bolungarvík, Tálknafirði, Flateyri, Þingeyri og Bíldudal.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×