Innlent

„Spurning hvort 1. apríl verði eftir­leiðis „sjálf­stæðis­dagur Kjós­verja““

Atli Ísleifsson skrifar
Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri  Kjósarhrepps, segir íbúa í Kjósinni fagna breytingunni. Heimili þeirra verða frá mánaðamótum ekki lengur kennd við Mosfellsbæ í póstnúmeraskrá.
Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Kjósarhrepps, segir íbúa í Kjósinni fagna breytingunni. Heimili þeirra verða frá mánaðamótum ekki lengur kennd við Mosfellsbæ í póstnúmeraskrá. Kjósarhreppur/Getty

Margra ára baráttu Kjósverja við Póstinn virðist lokið og verða heimili þeirra ekki lengur kennd við Mosfellsbæ í póstnúmeraskrá.

Þetta staðfestir Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Kjósarhrepps, í samtali við Vísi. Hún segir að Byggðastofnun hafi samþykkt þetta að fenginni annarri umsögn Póstsins og verður póstnúmerið nú „276 Kjós“ í stað „276 Mosfellsbær“. Breytingin tekur gildi um mánaðamótin næstu.

Þorbjörg segir mikla gleði ríkja meðal íbúa. „Þetta hefur verið löng barátta við kerfið sem nú er að baki. Það er spurning hvort 1. apríl verði eftirleiðis sjálfstæðisdagur Kjósverja,“ segir Þorbjörg.

Hún segir að þingmenn Suðvesturkjördæmis hafi einnig lagst á sveif með íbúum, en þeir heimsóttu Kjósverja í síðustu kjördæmaviku þingmanna. Virðist sem að það hafi hjálpað til í baráttunni, segir Þorbjörg.

Sjö þingmenn úr þremur flokkum lögðu á síðasta ári fram tillögu til þingsályktunar sem miðaði að því að Kjósarhreppur fengi nýtt póstnúmer og yrði ekki lengur kenndur við Mosfellsbæ í póstnúmeraskrá. Kom þar fram að íbúar í Kjósarhreppi hefðu lengi kvartað yfir póstnúmerinu „276 Mosfellsbær“ og sagt það hafa valdið ruglingi.

Þorbjörg sagði í samtali við fréttastofu í október að Pósturinn hefði lengi staðið fast á sínu og staðið í veg fyrir slíkri breytingu, þrátt fyrir að íbúarnir hafi í ótal skipti lent í vandræðum, meðal annars þegar kemur að heimsendingu.

Fram til ársins 2009 deildu íbúar í Kjósinni póstnúmerinu 270 með íbúum Mosfellsbæjar, en þá fengu þeir póstnúmerið 276. Nafn Mosfellsbæjar var þó enn hluti af póstnúmerinu, en auk Kjósarinnar fellur dreifbýli Mosfellsbæjar undir póstnúmerið 276 Mosfellsbær. En þetta breytist 1. apríl þegar póstnúmerið verður 276 Kjós.


Tengdar fréttir

Vilja að Kjósar­hreppur verði ekki lengur kenndur við Mos­fells­bæ

Sjö þingmenn úr þremur flokkum hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar sem miðar að því að sveitarfélagið fái nýtt póstnúmer og verði ekki lengur kenndur við Mosfellsbæ. Íbúar í Kjósarhreppi hafa lengi kvartað yfir póstnúmerinu 276 Mosfellsbær og sagt það um árabil hafa valdið ruglingi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×