Innlent

Fleiri munu geta sótt um greiðsluaðlögun eftir breytingar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Yfirlögfræðingur hjá umboðsmanni skuldara segir breytingarnar mikla búbót.
Yfirlögfræðingur hjá umboðsmanni skuldara segir breytingarnar mikla búbót. einar árnason

Fleiri munu geta leitað greiðsluaðlögunar en áður þegar skilyrði fyrir úrræðinu verða rýmkuð með nýjum lögum. Þetta segir yfirlögfræðingur hjá umboðsmanni skuldara sem fagnar breytingunum. 

Lagabreytingarnar taka gildi þann fyrsta apríl en markmið þeirra er að bæta úrræði um greiðsluaðlögun og gera málsmeðferðina skýrari og skilvirkari.

„Embættið fær nú heimild til að leggja til við kröfuhafa að samþykkja gjaldfrest af veðlánum ef skuldari getur ekki greitt raunafborganir við ákveðnar aðstæður. Og þá fær embættið jafnframt rýmri heimildir til að leggja til við kröfuhafa að samþykkja lægri afborganir,“ segir Lovísa Ósk Þrastardóttir, yfirlögfræðingur hjá umboðsmanni skuldara.

Á meðan samningaviðræður standa yfir geti skuldari að uppfylltum ákveðnum skilyrðum einnig óskað eftir leiðréttingu á yfirveðsetningu fasteignar.

„Og þá er verið að lækka veðskuldir niður að markaðsverðmæti eignarinnar.“

Lovísa Ósk er yfirlögfræðingur hjá umboðsmanni skuldara.aðsend

Þá verða skilyrði greiðsluaðlögunar rýmkuð og munu fleiri geta leitað í úrræðið eftir breytingarnar.

„Til að mynda geta einstaklingar sem eru ótímabundið búsettir erlendis farið í úrræðið að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.“

Í tilkynningu sem umboðsmaður skuldara sendi á fjölmiðla í dag kemur fram að þeim sem leita til embættisins vegna fjárhagsvanda fari fjölgandi. Umboðsmaður sagði ljóst að efnahagsástandið sé farið að bitna á fólki en umsækjendum sem eru með vinnu hefur fjölgað hjá embættinu.

Lovísa segir þessar nýju lagabreytingar taki að miklu leyti á því efnahagsástandi sem nú er uppi í þjóðfélaginu í kjölfar tíðra vaxtahækkana.

„Við erum að fá betri heimildir gagnvart fasteignaeigendum og þá erum við jafnframt að horfa til þess hóps sem mögulega mun glíma við yfirveðsetningu í framtíðinni.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×