Innlent

Lenti undir snjó­flóði í Stafdal

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr vefmyndavél í Stafdal klukkan 17:50.
Úr vefmyndavél í Stafdal klukkan 17:50.

Tveir voru á skíðasvæði í Stafdal ofan Seyðisfjarðar þegar snjóflóð féll um fjögurleytið í dag. Annar lenti undir snjóflóðinu en félagi hans náði að koma honum til bjargar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Austfjörðum.

Þar segir að tilkynning um flóðið hafi borist rétt upp úr klukkan fjögur. Tveir voru á svæðinu þegar flóðið féll og lenti annar þeirra undir. Viðbragðsaðilar voru strax ræstir út, björgunarsveitir á svæðinu og þyrla Landhelgisgæslu reiðubúin að fara af stað með hjálparlið og búnað. Aðgerðastjórn í umdæminu var virkjuð og samhæfingarstöð Almannavarna.

Um klukkan 16:30 var viðkomandi fundinn og laus undan flóðinu með aðstoð félaga síns. Hann var í kjölfarið fluttur undir læknishendur með sjúkrabifreið. Ekki er talið að meiðsl hans séu alvarleg en lerkaður eftir. Viðbragðsaðilar voru þá kallaðir til baka, rétt um klukkan 16:40.

Snjóflóðaeftirlit Veðurstofu var strax upplýst um atvik. Svæðinu hefur nú verið lokað þar til metið hefur verið hvort hætta er enn til staðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×