Lífið

Erfingjar Donnu Summer í mál við Kanye West

Bjarki Sigurðsson skrifar
Donna Summer flutti lagið I Feel Love sem er notað í lag Kanye West, GOOD (DON'T DIE).
Donna Summer flutti lagið I Feel Love sem er notað í lag Kanye West, GOOD (DON'T DIE). Getty/Scott Dudelson

Erfingjar dánarbús söngkonunnar Donnu Summer hafa höfðað mál gegn tónlistarmönnunum Kanye West og Ty Dolla $ign vegna meints stuldar á lagi hennar I Feel Love. 

Kanye er löngu orðinn einn þekktasti tónlistarmaður samtímans og gaf út plötuna Vultures fyrr í þessum mánuði með Ty Dolla $ign. Kanye framleiðir sín eigin lög alla jafna og notast oft við hljóðbúta (e. samples) úr öðrum lögum til þess að búa lögin til. 

Fyrir lagið GOOD (DON'T DIE) á nýju plötunni notaði hann einmitt hljóðbút úr laginu I Feel Love. Erfingjar Donnu voru búnir að kvarta yfir notkuninni og var lagið þá fjarlægt af helstu streymisveitum. Nú hafa þeir ákveðið að fara skrefinu lengra og höfða mál gegn tónlistarmönnunum. 

Bruce Sudano, ekkill Donnu, er sá sem höfðar málið fyrir hönd erfingjanna en að hans sögn höfðu tónlistarmennirnir óskað eftir því að nota hljóðbút úr laginu. Erfingjarnir höfnuðu beiðninni og sögðu að lagið myndi mögulega smána arfleifð Donnu. 

Kanye og Ty hafa ekki tjáð sig um málið hingað til en ekki er vitað hvers erfingjarnir krefjast frá þeim. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×