Lífið

Handboltahjónin í Garða­bæ selja húsið

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Tinna og Villi hafa sett slotið í Garðabænum á sölu.
Tinna og Villi hafa sett slotið í Garðabænum á sölu.

Þau gerast varla meiri íþróttahjón en Tinna Jökulsdóttir og Vilhjálmur Halldórsson í Garðabænum sem hafa sett raðhúsið sitt í Brekkubyggð á sölu.

Vilhjálmur og Tinna, sem eru nýkomin á fimmtugsaldurinn, kynntust á unglingsárum í Garðabænum en þá æfðu þau bæði handbolta með Stjörnunni. Vilhjálmur átti eftir að spila fyrir karlalandsliðið, stórskytta með meiru, en hefur undanfarin ár meðfram fullu starfi hjá Fastus heilsu einbeitt sér að þjálfun yngri iðkenda.

Það gerir Tinna líka í starfi sínu sem sjúkraþjálfari með Fókusþjálfun þar sem hún einblínir á fyrirbyggjandi æfingar fyrir börn í íþróttum. Auk þess er Tinna sjúkraþjálfari kvennalandsliðsins í handbolta.

Tinna segir í færslu á Facebook að þau Vilhjálmur hafi tekið húsið í gegn fyrir fimm árum. Nýrra eigenda bíði auk þess frábært hverfi og yndislegur garður fyrir börnin. Sjálf eiga þau Tinna og Vilhjálmur fimm enda er íþróttasvæði Stjörnunnar annað heimili fjölskyldunnar.

Raðhúsið er sex herbergja, með fimm svefnherbergjum og bílskúr. Þá er íþróttafólkið búið að koma sér upp gervigrasvelli í garðinum og körfu á bílskúrnum. Heitur pottur er til staðar fyrir rómantíska kvöldstund eða ærsl með börnunum.

Myndir af raðhúsinu smekklega má sjá að neðan og á fasteignavef Vísis. Ásett verð er 136 milljónir króna.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×