Menning

Emils- og Línu-tón­skáldið Georg Riedel látið

Atli Ísleifsson skrifar
Georg Riedel varð níutíu ára gamall.
Georg Riedel varð níutíu ára gamall. Wikipedia Commons

Sænska tónskáldið og djasstónlistarmaðurinn Georg Riedel, sem þekktastur er fyrir að hafa samið tónlistina í þáttunum og myndunum um Línu langsokk og Emil í Kattholti, er látinn. Hann varð níræður að aldri.

Fjölskylda Riedel staðfestir í samtali við sænska fjölmiðla að hann hafi andast í faðmi fjölskyldu sinnar í gærkvöldi.

Í frétt Aftonbladet segir að hann hafi samið tónlistina í á fjórða tug kvikmynda. Þekktastur er hann þó fyrir að hafa samið lög á borð við Sumarvísu Ídu og Hlustið góðu vinir og Litli grís í Emil í Kattholti. Þá samdi hann tónlistina í Línu langsokk ásamt Jan Johansson.

Riedel gerði sig einnig gildandi á sviði sænskrar djasstónlistar þar sem hann vann meðal annars með söngkonunni Monicu Zetterlund. Hann vann til fjölda verðlauna á ferli sínum og vann tvívegis til hinna sænsku Grammis-verðlauna og þá var hann tekinn inn í Frægðarhöll tónlistarinnar í Svíþjóð árið 2020.

Georg Ridel fæddist í gömlu Tékkóslóvakíu árið 1934 en fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Svíþjóðar þegar hann var fjögurra ára gamall. Móðir hans var læknir og gyðingur og faðir hans stjórnmálamaður og arkitekt.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×