Innlent

Skilur ekki hvers vegna það er ekki allt brjálað vegna breytinganna

Bjarki Sigurðsson skrifar
Drífa Snædal, talskona Stígamóta.
Drífa Snædal, talskona Stígamóta. Vísir/Steingrímur Dúi

Talskona Stígamóta segir að með nýrri stefnu ríkisstjórnarinnar sé verið að segja flóttafólki að það sé ekki velkomið til Íslands. Hún gagnrýnir sinn gamla flokk fyrir aðkomu sína að tilvonandi búsetuúrræði sem stangist á við stjórnarskrána.

Meðal breytinga sem ríkisstjórnin boðaði eru að afgreiðslutímar umsókna verði styttir í níutíu daga, landamæraeftirlit verður aukið til að fylgjast með þeim sem hafa fengið endurkomubann og á meðan umsækjendur bíða afgreiðslu umsóknar munu þeir dvelja í sérstöku búsetuúrræði.

Fólk frelsissvipt

Drífa Snædal, talskona Stígamóta, segir það koma henni á óvart hversu lítið pólitískt viðnám er við hugmyndum ríkisstjórnarinnar.

„Það sem ég hef verið að gagnrýna er sérstaklega þessar hugmyndir um varðhaldsbúðir eða lokuð búsetuúrræði eins og stjórnvöld kalla það. Þarna er verið að leggja drög að því að frelsissvipta fólk sem hefur ekki gert neitt annað af sér en að leita að betra lífi. Fólk sem getur ekkert farið, allar bjargir bannaðar nema að setja sig í lífshættu. Það er ekki verið að taka tillit til mannúðarsjónarmiða eins og sögu fólks sem hefur til dæmis lent í mansali og þá erum við sérstaklega að tala um konur,“ segir Drífa. 

Flóttafólk í verri stöðu

Hún telur að búðirnar stangist á við stjórnarskrá Íslands.

„Flóttafólk á Íslandi verður augljóslega í verri stöðu. Til þess er leikurinn gerður, það er að segja að gefa út þau skilaboð til umheimsins að hingað sé fólk ekki velkomið,“ segir Drífa.

Heyrist of lítið frá öðrum flokkum

Drífa sat um tíma á þingi sem varaþingmaður Vinstri grænna. Hún gagnrýnir sinn gamla flokk fyrir að styðja breytingarnar.

„Það kemur mér afskaplega mikið á óvart að flokkar sem hafa hingað til gefið sig út fyrir að vera í varðstöðu fyrir mannúð og mannréttindi séu núna farin að gefa eftir í þessum málum og það kemur mér mjög á óvart að það sé ekki allt brjálað yfir þessu í pólitíkinni,“ segir Drífa



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×