Innlent

Sex­tán ára hand­tekinn fyrir há­ska­akstur eftir eftir­för á hálum ís

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hvorki ökumaður né farþegi bifreiðarinnar voru með ökuréttindi.
Hvorki ökumaður né farþegi bifreiðarinnar voru með ökuréttindi. Vísir/Vilhelm

Betur fór en á horfðist í gærkvöldi þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu neyddist til að hefja eftirför eftir ökumanni bifreiðar sem sást aka gegn rauðu ljósi og sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu.

Ökumaðurinn jók þvert á móti hraðann til að komast undan og ók á allt að 150 km/klst þar sem hámarkshraði er 60 km/klst, þrátt fyrir mikla hálku á svæðinu. 

„För hans var stöðvuð með því að aka í veg fyrir hann við gott tækifæri og stöðvaði hann áður en til áreksturs kom,“ segir í tilkynningu lögreglu en í ljós kom að ökumaðurinn var aðeins 16 ára gamall og eðli málsins samkvæmt ekki með ökuréttindi.

Í bifreiðinni með honum var 17 ára farþegi sem var heldur ekki með ökuréttindi.

Ökumaðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð enda grunaður um fjölda umferðarbrota. Forráðamaður kom síðan og vitjaði barnsins en lögregla segir mikla mildi að engin slys urðu á fólki.

Nokkrir aðrir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur og þá var einn staðinn að því að nota farsíma án handfrjáls búnaðar. Ein tilkynning barst um umferðarslys þar sem tvær bifreiðar reyndust skemmdar auk vegriðs.

Þá bárust lögreglu einnig tilkynningar vegna einstaklinga í annarlegu ástandi og grunsamlegra mannaferða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×