Innlent

Á­stæða til að skoða lög­leiðingu kanna­bis í lækninga­skyni

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðherra telur ástæðu til að skoða hugmyndir um lögleiðingu kannabis í lækningaskyni, en hefur ekki tekið ákvörðun um hvort formleg vinna hefjist um málið. Slíkar breytingar verði að vinna í samráði við dómsmálaráðuneytið. 

Fyrir helgi steig fjölskyldufaðir fram í viðtali og sagði sárt að þurfa að verða sér úti um ólöglega eiturlyfið kannabis til að lina þjáningar vegna tveggja sársaukafullra taugasjúkdóma sem hann glímir við. Maðurinn, Hómsteinn hefur prufað öll þau lyf sem læknar hafa skrifað upp á en ekkert virkað. 

Eina sem slær á verkina er kannabis sem gerir honum kleift að hreyfa sig um á daginn. Hann berst nú fyrir því að efnið verði gert löglegt í lækningaskyni undir eftirliti sérfræðinga.

„Ég sá viðtal við þennan einstakling og heyrði hvað hann segir. Mér finnst algjör ástæða til að skoða það betur. Nú höfum við heimilað framleiðslu á slíkum olíum en þá er miðað við ákveðið gildi THC,“ segir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Mun hlusta á fagfólkið

Olíurnar sem Willum vísar til eru CBD olíur og löglegar hér á landi en efnið THC sem hann nefnir er virka vímuefnið í Kannabisinu. Notkun þess er ólögleg hér á landi.

„Það er ólögleg efni, þannig við þurfum að taka það samtal þá við fleiri en bara sérfræðinga í heilbrigðisráðuneytinu og fagfólk í heilbrigðisþjónustu. En við eigum að hlusta og kanna hvað hægt er að gera. Ég mun hlusta auðvitað á fagfólkið í þessu en er alltaf tilbúinn til að hitta viðkomandi af því að hann nefndi það að hann vildi hitta heilbrigðisráðherra.“

Samtal um lögleiðingu kannabis í lækningaskyni þurfi að gerast í samráði við dómsmálaráðherra og fleiri.

En ætlar þú að hafa frumkvæði að því að hefja slíkt samtal?

„Ég veit ekki með hversu formlegum hætti það er, en þessi umræða er komin í gang og hún hefur svo sem verið varðandi þessar olíur en hún heldur áfram. Hvort ég fari inn í það með einhverjum formlegum hætti hef ég ekki tekið neina ákvörðun um.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×