Innlent

Ók á gang­stéttum og stígum á flótta undan lög­reglu

Eiður Þór Árnason skrifar
Fjölbreytt mál komu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Fjölbreytt mál komu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. vísir/vilhelm

Lögregla hóf eftirför þegar ökumaður sinnti ekki stöðvunarmerkjum í nótt og náði bifreiðin mest 150 kílómetra hraða á klukkustund. Bifreiðinni var ekið á gangstéttum og stígum á fimmta tímanum í nótt í tilraun til að komast undan lögreglu.

Þegar ökutækið var stöðvað skömmu síðar voru bílstjóri og farþegi handteknir en í ljós kom að báðir eru 15 ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem segir mikla mildi að enginn hafi slasast við eftirförina. Haft var samband við foreldra þeirra sem áttu hlut að máli sem komu á lögreglustöðina.

Á þriðja tímanum í nótt var tilkynnt um einstakling sem var að berja í bíla og öskra á fólk í miðborg Reykjavíkur. Var sá handtekinn en við leit á manninum fannst barefli sem var handlagt, að sögn lögreglu. Eitthvað bar á öðrum minniháttar málum og líkamsárásum í miðborginni í nótt.

Lögregla kölluð út vegna holu

Eftir klukkan 1 í nótt hafði ökumaður samband við lögreglu og sagðist hafa sprengt dekk á bifreið sinni eftir að hafa ekið í holu á veginum. Þegar lögregla kom á staðinn höfðu nokkrar aðrar bifreiðar lent í sömu holunni og sprengt dekk. Beðið var eftir fulltrúum Vegagerðarinnar sem komu og gerðu ráðstafanir til að koma í veg fyrir frekara eignatjón.

Skömmu eftir 2 var tilkynnt um manneskju sem var á gangi á miðri akbraut ónefndrar stofnbrautar. Að sögn lögreglu kom í ljós kom að einstaklingurinn var ofurölvi og var honum ekið til síns heima.

Einnig var ökumaður bifreiðar stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Sá var fluttur á lögreglustöð til sýnatöku og látinn laus að henni lokinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×