Innlent

Grunaður um líkams­á­rás á Enska barnum fyrir fjórum árum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir að ná tali af manninum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir að ná tali af manninum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Karlmaður sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu dreifði myndum af á þriðjudag og óskar eftir að ná tali af er grunaður um líkamsárás á Enska barnum fyrir um fjórum árum.

Þetta herma heimildir fréttastofu en ekki var greint frá því í tilkynningu lögreglu hvers vegna mannsins væri leitað. Samkvæmt heimildum fréttastofu er maðurinn grunaður um að hafa kastað glasi í andlitið á konu sem var gestur á öldurhúsinu í Austurstræti með þeim afleiðingum að brotnaði í henni tönn.

Önnur mynd af manninum.

Málið hefur verið á borði lögreglu síðan en rannsóknin gengið hægt og lítið þokast áfram. Samkvæmt heimildum fréttastofu var annar aðili handtekinn á vettvangi umrætt kvöld fyrir að ráðast á dyraverðina sem ætluðu að hafa hendur í hári þess sem kastaði glasinu.

Sá sem var handtekinn hefur sagst ekki kannast við meintan árásarmann á myndinni þótt myndefni frá því umrætt kvöld sýni þá í hrókasamræðum. Þeir sem þekkja til Enska barsins í Austurstræti sjá af myndinni þar sem hann gengur inn um dyr að um er að ræða innganginn á staðinn.

Karlmaðurinn labbar inn á Enska barinn.LRH

Maðurinn er vinsamlegast beðinn um að hafa samband við lögreglustöðina á Hverfisgötu 113-115 í Reykjavík í síma 444 1000.

„Ef einhver þekkja til mannsins, eða vita hvar hann er að finna, eru hin sömu einnig beðin um að hringja í lögregluna, en upplýsingum má jafnframt koma á framfæri í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is.“


Tengdar fréttir

Lögreglan leitar manns

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir að ná tali af manninum á meðfylgjandi myndum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×