Þar segirað lögreglan muni nú framkvæma ítarlega leit á þessu afgirta svæði. Lögregla beindi leit sinni að svæðinu eftir að leitarhundar fóru yfir svæðið. Garðurinn er í um þriggja kílómetra fjarlægð frá þeim stað þar sem Jón sást síðast á lífi.

Í frétt Independent segir að lögreglan hafi ekki enn fundið neitt markvert í leit sinni en að tæknimenn og réttarmeinafræðingar eigi eftir að fara yfir svæðið. Hefur það verið afgirt á meðan sú vinna fer fram.
Eins og fram hefur komið hófst leitin í gær eftir að tvær ólíkar nafnlausar ábendingar bárust um að Jón hefði hitt einhvern í garðinum og látist í kjölfarið. Á írska miðlinum Dublin Live kom fram í gær að lögreglan óttaðist að hann hefði mögulega verið myrtur.
Er haft eftir lögreglunni að Jón hafi á fundinum ætlað sér að nálgast frekara fjármagn til pókerspilunar. Hann var með unnustu sinni í írsku höfuðborginni og meðal keppenda á pókermóti. Lögregla telji að mögulega hafi komið til átaka á fundinum og líki hans komið fyrir í almenningsgarðinum í kjölfarið.
Bréf til lögreglu og prests
Haft er eftir lögreglunni að nægilegt magn upplýsinga hafi verið til staðar í bréfunum svo tilefni þyki til þess að leita að jarðneskum leifum Jóns í garðinum. Bréfin tvö fóru annars vegar til lögreglu og hins vegar til prests í borginni
Leitarhundar hafa verið notaðir við leitina sem og kafarar. Garðurinn er um 72 ekrur sem samsvarar um 0,72 hektara. Í garðinum er að finna leiksvæði, á og tjörn, lystiskála og ýmsar byggingar.