Sport

Mesta ­á­horfið síðan að Neil Armstrong gekk um á tunglinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Taylor Swift kyssir kærasta sinn og innherja Super Bowl meistara Kansas City Chiefs, Travis Kelce,  í leiklok í Las Vegas.
Taylor Swift kyssir kærasta sinn og innherja Super Bowl meistara Kansas City Chiefs, Travis Kelce,  í leiklok í Las Vegas. AP/John Locher

Super Bowl leikur Kansas City Chiefs og San Francisco 49ers setti nýtt áhorfsmet. Aldrei áður hafa fleiri Bandaríkjamenn horft á útsendingu frá íþróttaefni í sjónvarpi.

Alls horfðu að meðaltali 123,4 milljónir manns á leikinn sem Kansas City liðið vann eftir æsispennandi framlengingu.

Það þarf að fara alla leið aftur til ársins 1969, þegar maðurinn steig á tunglið í fyrsta skiptið, til að finna meira áhorf í bandarísku sjónvarpið. Talið er að um 125 til 150 milljónir hafi horft á tunglgönguna fyrir 55 árum.

Áhorfið á leikinn í fyrrinótt var sjö prósentum meira en áhorfið á Super Bowl leikinn í fyrra þegar Kansas City vann sigur á Philadelphia Eagles. Þá horfðu 115,1 milljón manns á leikinn. Það var gamla metið fyrir Super Bowl leik.

Leikurinn var sýndur beint í sjónvarpi í Bandaríkjunum á nokkrum stöðum eins og á CBS sjónvarpsstöðinni sem og í sérstakri barnaútsendingu á Nickelodeon sjónvarpsstöðinni.

Meðaláhorfið á útsendingu CBS, aðalútsendinguna frá leiknum, voru 120 milljónir manns.

Nielsen mældi það enn fremur að alls horfðu 202,4 milljónir manna á hluta af leiknum sem var tíu prósent meira en í fyrra.

Aðkoma Taylor Swift á auðvitað mikinn þátt í auknum áhuga en leikurinn var líka æsispennandi allan tímann og endaði í framlengingu. Þetta var líka lengsti Super Bowl leikur sögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×