Innlent

Segir stjórn­völd rög við að taka sjálf­stæðar á­kvarðanir

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Þórhildur Sunna segir íslensk stjórnvöld ekki vera að standa sig í málum Palestínu.
Þórhildur Sunna segir íslensk stjórnvöld ekki vera að standa sig í málum Palestínu. Vísir/Steingrímur Dúi

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata sem er einnig menntuð í alþjóða- og Evrópulögum segir íslensk stjórnvöld ekki hafa verið að standa sig varðandi átökin í Palestínu.

Mikilvægt sé að aðildarríki að samningnum um bann við þjóðarmorði geri allt sem í sínu valdi stendur að bregðast við og koma í veg fyrir slíkt og að vonandi verði bráðabirgðaúrskurður alþjóðadómstólsins í Haag til þess ýta á eftir íslenskum stjórnvöldum.

„Hann setur aukinn þunga í kröfuna um að við bregðumst við með harkalegri hætti heldur en mjúkum yfirlýsingum um að það verði að fylgja alþjóðalögum eða einhverju slíku eins og íslensk stjórnvöld hafa verið að gera fram að þessu,“ segir Þórhildur Sunna og á við úrskurðinn.

Meðal þessara harkalegri viðbragða séu viðskiptaþvinganir, minnkun á stjórnmálasambandi Íslands við Ísrael og þrýstingur á önnur ríki að auka stuðning sinn við Palestínumenn.

Staða Íslands frábrugðin

Þórhildur segir íslensk stjórnvöld vera rög við að taka sjálfstæðar ákvarðanir gagnvart Ísraels og horfa mikið til nágrannaþjóða í Evrópu og Ameríku en að staða Íslands sé frábrugðin vegna þess að Ísland hefur viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki.

„Vonandi þýðir þetta vopnahlé strax. Það hefur mikið verið talað um það að dómstóllinn hafi ekki skipað tafarlaust vopnahlé en það er mjög snúið lagalega fyrir dómstólinn að gera það,“ segir Þórhildur.

„En það sem þetta þýðir er að þau þurfi að gjörbreyta sínum hernaði og í raun draga mjög mikið í land ef ætlunin er að fylgja þessum úrskurði. Svo á auðvitað eftir að koma í ljós hvort þau muni fylgja honum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×