Innlent

Gefa sér ekki tíma til að óttast

Árni Sæberg skrifar
Pípulagningarmenn og fleiri vinna baki brotnu að því að bjarga því sem bjargað verður í Grindavík.
Pípulagningarmenn og fleiri vinna baki brotnu að því að bjarga því sem bjargað verður í Grindavík. Vísir/Arnar

Pípulagningameistari sem fer fyrir vinnu í Grindavíkurbæ segir að unnið sé í kappi við tímann við að koma vatni og rafmagni á bæinn. Vinnumenn gefi sér ekki tíma til þess að óttast um eigið öryggi innan bæjarins en fari auðvitað varlega.

Þorsteinn Einarsson, pípulagningarmeistari í Grindavík, leiðir hóp fjörutíu til fimmtíu manna sem vinna nú baki brotnu við að koma rafmagni og heitu og köldu vatni á bæinn. 

Sjálfur er hann að vinna við að laga kaldavatnsstofnæð sem fór í sundur með þeim afleiðingum að ekkert kalt vatn er á Grindavík. Hann segir að skera þurfi út og skipta um fjörutíu metra kafla á lögninni.

Ekkert stórvægilegt tjón 

Þorsteinn segir að enn sem komið er hafi vinnumenn ekki orðið varir við neitt stórvægilegt tjón á pípulögnum í bænum. 

„Það eru allir að vinna í kapphlaupi við tímann að koma hita á húsin, athuga hvort þau séu í lagi þar sem vatnið er komið á og svo reyna að frostverja þau sem er ekki hiti á. Sums staðar þar sem er komið heitt vatn er ekki komið rafmagn og þá virkar ekki miðstöðvarkerfið þar sem eru dælur og flókin kerfi.

Ekkert rafmagns sé til að mynda á iðnaðarhverfi bæjarins og í Efrahópi, þar sem þrjú hús urðu glóandi hrauni að bráð, sé hvorki heitt vatn né rafmagn.

Enginn beygur á mönnum

Þorsteinn segir að vinnan hafi gengið vel það sem af er degi. Góð veðurskilyrði séu í Grindavík, lítið frost og logn. „Þetta eru góðar aðstæður, gætu verið verri.“

Er enginn beygur á mönnum?

„Nei, maður gefur sér ekki tíma til að hugsa um það. Af því að maður er eiginlega í akkorði við að reyna að bjarga sem mestu. En auðvitað fer maður varlega yfir þar sem eru hættu. Þær leiðir sem eru opnar eru öruggar. Svo eru þarna nokkrir hlutar af bænum sem okkur er bannað að fara inn í.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×