Innlent

Fyllsta öryggis hafi ekki verið gætt

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Að minnsta kosti tvö tilvik hafa komið upp, þar sem björgunarsveitamenn í Grindavík hafa ekki gætt fyllsta öryggis.
Að minnsta kosti tvö tilvik hafa komið upp, þar sem björgunarsveitamenn í Grindavík hafa ekki gætt fyllsta öryggis.

Upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að sér hafi verið verulega brugðið vegna atviks þar sem björgunarsveitamaður féll með lærið ofan í sprungu í gær. Ljóst sé að öryggisreglum hafi ekki verið fylgt. 

Myndband af atvikinu hefur vakið mikla athygli. Maðurinn var á gangi eftir malbikuðum stíg þar sem ekki var sjáanleg sprunga, en skyndilega gaf jörðin sig. Myndbandið má sjá hér að neðan. 

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að sér hafi brugðið verulega þegar hann sá myndbandið. 

„Þetta sýnir okkur svart á hvítu að björgunarsveitarfólk verður að gæta að fyllsta öryggis í hvívetna inni á skilgreinda hættusvæðinu. Það er ljóst að það var ekki gert í þessum tilvikum og það þykir okkur afar miður.“

Við getum aldrei slegið af öryggiskröfum í aðstæðum sem þessum.

Fréttamaður Stöðvar 2 sem var á vettvangi segir einu tilmælin hafa verið að fara ekki úr augsýn björgunarsveitafólks og ganga ekki á grasi. Björgunarsveitafólk á vettvangi hafi gætt fyllsta öryggis viðstaddra.

Engar afsakanir fyrir því að fylgja ekki öryggiskröfum

Auk þessa hafa myndir af björgunarsveitarmönnum í Grindavík þar sem þeir standa mjög nálægt sprungum án nokkurs öryggisbúnaðar verið í dreifingu á samfélagsmiðlum. Spurningar hafa vaknað um hvort öryggi þeirra sé fyllilega tryggt. 

Strangar vinnureglur gilda um útköll eða æfingar björgunarsveitamanna á jöklum, sem kveða á um að þeir þurfi að notast við línur eða annan öryggisbúnað. Margir hafa furðað sig á að það sama gildi ekki um björgunarsveitamenn að störfum í Grindavík.Vegagerðin

Jón Þór segir atvikin hafa orðið til þess að öryggisráðstafanir hafi verið ítrekaðar við björgunarsveitafólk. 

„Við getum aldrei slegið af öryggiskröfum í aðstæðum sem þessum og höfum ítrekað við okkar fólk sem þarna eru að störfum, að fylgja öllum öryggisreglum til hins ítrasta. Það verður bara að segjast að það var ekki gert í þessum tilvikum. Fyrir því eru engar afsakanir.“

Aðspurður um hvort öryggisráðstafanir björgunarsveitamanna hafi verið endurskoðaðar segir Jón Þór svo ekki vera.

„Nei, þær hafa ekki verið endurskoðaðar og ekki þörf á því, en brýnt fyrir öllum að fylgja þeim til hins ítrasta. Það var ekki raunin í þessum tilvikum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×