Innlent

Átta slasaðir eftir al­var­legt slys við Skaftafellsá

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Slyssið varð á þjóðvegi 1 við Skaftafellsá nærri Svínafellsjökli um tíuleytið í morgun.
Slyssið varð á þjóðvegi 1 við Skaftafellsá nærri Svínafellsjökli um tíuleytið í morgun. Grafík/Sara

Hópslysaáætlun hefur verið virkjuð á Suðurlandi eftir árekstur tveggja bíla á þjóðveginum við Svínafellsjökul á Suðurlandi. Átta eru sagðir slasaðir þar af tveir alvarlega. Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru á leiðinni á vettvang. Lokað hefur verið umferð um veginn vegna slyssins.

Þetta staðfestir Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Suðurlandi í samtali við Vísi. Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir björgunarsveitina Kára í Öræfum hafa verið kallaða út en langt er í aðrar bjargar á þessu svæði.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að tilkynning hafi borist gæslunni um tíuleytið. Önnur þyrla gæslunnar hafi verið að búa sig undir æfingu og því verið fljót í loftið um klukkan 10:14. Hin þyrlan hafi svo lagt af stað um hálftíma síðar.

Reiknað er með því að fyrri þyrlan verði komin á vettvang slyssins um klukkan 11:15. Fréttastofa hefur ekki upplýsingar um aðdraganda slyssins. Hringveginum hefur verið lokað í óákveðinn tíma við slysstað. Engar hjáleiðir eru á svæðinu.

Fram kemur á vef Vegagerðarinnar að hálka sé víða á vegum. Þá hefur sést til hreindýra við veg í nágrenni við Jökulsárlón. Vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát. Í færslu Lögreglunnar á Suðurlandi á Facebook segir að fyrsta tilkynning vegna slyssins hafi borist klukkan 09:50.


Veistu meira um málið? Sendu okkur línu á ritstjorn@visir.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×