Innlent

Rann­saka um­skurð í heima­húsi á Akur­eyri

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan á Norðurlandi eystra fer með rannsókn málsins.
Lögreglan á Norðurlandi eystra fer með rannsókn málsins. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Norðurlandi eystra er með til rannsóknar hvort drengur á öðru aldursári hafi verið umskorinn í heimahúsi á Akureyri haustið 2022. 

Ríkisútvarpið greinir frá þessu, og hefur eftir Skarphéðni Aðalsteinssyni aðstoðaryfirlögregluþjóni að rannsóknin hafi staðið yfir síðan í september 2022. Tilkynning hafi borist um aðgerðina frá heilbrigðisstofnun á Norðurlandi.

RÚV hefur eftir heimildum að farið hafi verið með drenginn á Sjúkrahúsið á Akureyri eftir aðgerð, að beiðni barnaverndaryfirvalda. Framkvæma hafi þurft aðgerðina aftur á sjúkrahúsinu, til að koma í veg fyrir að sýking kæmi í sárið, sem var farið að blæða í.

Kona frá Gana hafi ferðast til Akureyrar frá Ítalíu til að framkvæma aðgerðina, en foreldrar drengins hafi borið því við að þeir vissu ekki að slíkar aðgerðir gætu verið ólöglegar.

Lengi verið umdeilt  

Umskurður drengja hefur verið nokkuð umdeildur hér á landi. Árið 2018 lagði Silja Dögg Gunnarsdóttir, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins, fram frumvarp ásamt átta öðrum þingmönnum, þar sem lagt var til að umskurður barna yrði alfarið bannaður. 

Frumvarpið vakti gríðarlega athygli hér á landi sem og erlendis, en náði að endingu ekki fram að ganga. Hefði það gerst hefði Ísland orðið fyrsta Evrópulandið til að banna umskurð barna alfarið. 

Landlæknisembættið lagðist gegn frumvarpinu á sínum tíma, á þeim grundvelli að trúarlegar og menningarlegar hliðar málsins væru svo ríkar, að umskurður drengja yrði áfram framkvæmdur, óháð afstöðu heilbrigðiskerfisins og samfélagsins til slíkra aðgerða.

„Það er því nauðsynlegt að löggjöf á þessu sviði sé gerð þannig úr garði að umskurður á drengjum valdi ekki barninu skaða,“ sagði í umsögn Landlæknis árið 2018. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×