Innlent

Mál Guð­mundu þyngra en tárum taki

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Helga Arnardóttir segir mikilvægt að viðurkennt verði að brotið hafi verið á Guðmundu.
Helga Arnardóttir segir mikilvægt að viðurkennt verði að brotið hafi verið á Guðmundu. Vísir/Samsett

Helga Arnardóttir, kvikmyndagerðarkona, segir mál Guðmundu Tyrfingsdóttur sem var vörslusvipt búfénaði sínum og honum ólögmætt slátrað, vera þyngra en tárum tekur í færslu sem hún birti á Facebook í dag.

Guðmunda Tyrfingsdóttir er bóndi í Lækjartúni í Ásahreppi og í desember í fyrra fór hún úr axlarlið og var flutt á sjúkrahús. Þá svipti Matvælastofnun hana vörslu allra gripa sinna þar sem enginn, að mati MAST, gat fengist til að sinna búfénaðinum í fjarveru hennar. Hallgerður Kolbrún fjallaði ítarlegar um málið á Vísi.

Matvælaráðuneytið úrskurðaði fyrr í mánuðinum að MAST hafi ekki verið heimilt að slátra dýrunum. Í úrskurðinum kemur fram að engin staðfesting hafi verið í gögnum MAST að dýrin hafi orðið fyrir varanlegum skaða vegna vanrækingar eða slæms aðbúnaðar. Ástand dýranna hafi þá verið í lagi þegar ákvörðun var tekin um að slátra þeim.

„Dýravinur og fyrirmyndarbóndi frá því hún man eftir sér sem þurfti að enda sinn búskap á þennan sorglega hátt,“ skrifar Helga í færslunni.

Helga segir að Guðmunda hafi í rauninni misst mannréttindi sín við það að fara úr axlarlið. Hún segir að þó hún fái dýrin aldrei aftur sé mikilvægt að viðurkennt verði að brotið hafi verið á Guðmundu.

„Ég var svo heppin að hitta Guðmundu skömmu fyrir jól árið 2011 þegar hún var tæplega áttræð. Ég varði næstum heilum degi með henni ásamt tökumanni Stöðvar 2: Friðriki Þór Halldórsson og viðtalið við Guðmundu var eitt það eftirminnilegasta á mínum fjölmiðlaferli. Fyrir utan þá staðreynd að Guðmunda sjálf er ógleymanleg persóna,“ bætir Helga við.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×